18. október 2018

Ársfundur MSS

Ársfundur MSS

Ársfundur MSS var haldinn 8. október síðastliðinn. 

Guðjónína Sæmundsdóttir forstöðumaður fór yfir ársskýrslu og ársreikning stofnunarinnar. Ljóst er að starfsemin blómstrar sem aldrei fyrr. Hægt er að lesa ársskýrsluna á vef MSS.
R. Helga Guðbrandsdóttir fór yfir starfsemi Samvinnu en um 60-70 einstaklingar voru að nýta sér þjónustu Samvinnu á árinu 2017. Nanna Bára Maríasdóttir fór yfir starfsemi fyrirtækjasviðs en þjónusta við fyrirtæki á svæðinu hefur aldrei verið meiri og fjölbreyttari en nú.

Tveir þátttakendur sem hafa nýtt sér þjónustu og framboð MSS komu og sögðu sína sögu og er óhætt að segja að þær sögur hafi ekki látið neinn ósnortinn.

Anna Rán á langa sögu andlegra erfiðleika en hún hefur tekist á við áráttu- og þráhyggjuröskun frá fjögurra ára aldri, hún missti föður sinn ung og var sjö ár í ofbeldissambandi sem hafði mikil neikvæð áhrif á sjálfsmynd hennar og heilsu. Staða Önnu Ránar var erfið þegar hún hóf starfsendurhæfingu hjá Samvinnu fyrir tveimur árum. Anna Rán lýsti sjálfri sér sem óvinnufærri, nýgreind með vefjagigt og að sjálfsmynd hennar hafi verið niðurbrotin. Hún upplifði sig alveg týnda, hafði aldrei sett sér nein markmið í lífinu einfaldlega vegna þess að hún ætlaði sér aldrei að lifa nógu lengi til þess að uppfylla einhver markmið eða drauma. Anna Rán tók sjálf ákvörðun um að leita sér aðstoðar en að hennar sögn var það fyrsta sjálfstæða ákvörðunin sem hún hefur tekið í lífinu, ákvörðun sem hefur skilað henni nýjum tækifærum og markmiðum.

Herdís Ósk Sveinbjörnsdóttir kom inn í Samvinnu - starfsendurhæfingu en hún hóf svo nám í Grunnmenntaskólanum og Menntastoðum á endurhæfingartímabilinu. Herdís sagði frá erfiðri skólagöngu sinni en hún var lögð í einelti af nemendum og kennurum. Herdís lýsir sjálfri sér sem algjörlega niðurbrotinni þegar hún kom til Samvinnu. Sautján ára gömul varð  hún fórnarlamb nauðgunar og síðar var hún í ofbeldissambandi í sjö ár. Í dag stundar Herdís nám við frumgreinadeild Keilis. Að hennar sögn hafði hún aldrei séð fyrir sér að fara aftur í nám og hafði í raun ákveðið að það væri alls ekki vettvangur fyrir hana en hún stefnir á að ljúka Keili og halda áfram í námi að því loknu, mögulega í félagsráðgjöf. Herdís segist horfa fram á veginn og ætlar sér ekkert til baka heldur halda áfram sinni vinnu, sama hversu erfið hún er. Hún vill ennfremur nýta reynslu sína til góðs og segist vilja geta gert eitthvað til þess að þrýsta á breytingar í kerfinu og bendir á mikilvægi þess að láta rödd sína heyrast.

Til baka í fréttir