13. maí 2019

Forsetaheimsókn

Forsetaheimsókn

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson og kona hans frú Eliza J. Reid hafa verið í opinberri heimsókn í Reykjanesbæ dagana 2.-3. maí. MSS varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá þau heiðurshjón í heimsókn og metum við það mikils.

Við móttöku forsetahjónanna var lögð áhersla á fjölmenningu og kynningu á þeim námstilboðum, sem við bjóðum innflytjendum hér á svæðinu í samstarfi við stofnanir s.s. Vinnumálastofnun, Virk og Reykjanesbæ.

Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður bauð forsetahjónin velkomin ásamt fríðu föruneyti en með þeim í för var m.a. bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson.

Þá fengum við ávörp nokkurra starfsmanna MSS, auk núverandi og fyrrverandi nemenda, sem sögðu frá reynslu sinni í tengslum við fjölmenningarlegar áskoranir, persónulega upplifun og mismunandi tækifæri til að takast á við líf í nýju landi.

Ania W. Fedorowicz kennari sagði okkur frá lífshlaupi sínu á Íslandi en hún kemur frá Póllandi og hefur búið hér um nokkurt skeið.  Hún hefur tekist á við ólík verkefni, m.a. unnið við fiskvinnslu, á leikskóla, við einkaþjálfun og ýmislegt fleira.  Ania hefur s.l. ár starfað sem íslenskukennari hjá MSS en hefur nú verið ráðin í fullt starf til Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum enda mikil þörf þar fyrir pólsk/íslenskumælandi starfsfólk. 

Francisco J. Valladares Lanies kom sem hælisleitandi hingað til lands frá Honduras, ásamt konu sinni Claudiu O. Serrano og tveimur sonum þeirra árið 2012.  Fyrstu árin stunduðu þau hjón íslenskunám hjá okkur í MSS og drengirnir stunduðu nám í FS og Keili.  Fjölskyldan setti fljótlega á stofn veitingahús og hafa þau nú starfrækt veitingastaðinn Fernandos í Keflavík í nokkur ár en staðurinn er rómaður fyrir ljúffengan mat.  Nú starfa 14 manns hjá Fernandos og er fjölskyldan hæst ánægð með lífið í Reykjanesbæ og þakklát fyrir góðar móttökur.  Francisco þakkaði MSS fyrir  íslenskukennsluna og fyrir hlýlegt og gott viðmót. 

Monika Kruz mannauðsfræðingur talaði næst um mikilvægi fjölmenningarfræðslu og mannauðsstjórnunar. Monika er pólsk og hefur starfað hjá MSS á fyrirtækjasviði í ríflega hálft ár en hún hefur sjálf búið á Íslandi í u.þ.b. fjögur ár.  Hún hefur reynslu af því að vinna í fiskvinnslufyrirtækjum á Íslandi og lagði á það ríka áherslu að fyrirtæki legðu rækt við það að efla starfsandann og koma í veg fyrir ójafnvægi sem skapast gæti vegna menningarlegs mismunar. Hún taldi jafnan að einmitt sá þáttur gæti vegið meira en tungumálaörðugleikar og mikilvægt væri því að fólk fengi fræðslu um ólíka menningarheima.    

Evita Mustapha kom til landsins sem hælisleitandi frá Nígeru og var í íslenskunámi hjá MSS fyrstu árin á Íslandi.  Hún hefur starfað hér á landi um árabil en vegna veikinda kom hún á þessu ári  inn í þjónustu hjá Virk og þannig hefur hún verið í þjónustu Samvinnu endurhæfingar, sem er hluti af starfsemi MSS.  Hluti af endurhæfingu Evitu er að taka þátt í verkefni sem heitir Íslensk menning og samfélag en það snýst m.a. um sjálfstyrkingu ,skilning á íslensku samfélagi og íslenskukennslu.  Evita notaði tækifærið til að sýna þakklæti sitt fyrir það að hafa fengið að koma aftur í skólann til að efla sig og vinna með ólík verkefni.  Það væri henni ómetanlegt.   

Eftir áhugaverð erindi var boðið upp á kaffi og fengu nemendur okkar og starfsfólk tækifæri til að spjalla við forsetahjónin, sem voru að vanda alþýðleg. Kaffiveitingarnar voru að þessu sinni undirbúnar af íslenskunemendum okkar og eru þeim færðar bestu þakkir.  Að lokum þökkum við þeim hjónum Guðna og Elizu fyrir komuna og veri þau ávallt velkomin í MSS.

 

  

 

 

 

 

 

Til baka í fréttir