10. september 2018

Fyrstu stóru Menntabúðirnar á Suðurnesjum - fagfólk af öllum skólastigum eflir tengsl og lærir saman

Fyrstu stóru Menntabúðirnar á Suðurnesjum  - fagfólk af öllum skólastigum eflir tengsl og lærir saman

Fimmtudaginn 6. september síðastliðinn var fagfólki í skólasamfélaginu á Suðurnesjum boðið til Menntabúða í húsnæði MSS að Krossmóa 4. Forsaga að búðunum er sú að fyrir nokkru var stórum hópi fólks úr menntageiranum á Suðurnesjum hóað saman af frumkvæði Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum. Þar kom saman fagfólk úr leik- og grunnskólum, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Keili - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Þar var stofnaður stýrihópur sem mun á komandi vetri standa að nokkrum menntabúðum á svæðinu.

Stýrihópinn skipa Brynja Aðalbergsdóttir, leikskólastjóri á leikskólanum Vesturbergi, Heiða Mjöll Brynjarsdóttir, sérkennslustjóri á leikskólanum Holti, Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Grunnskólans í Sandgerði, Sigrún Svafa Ólafsdóttir, kennari í háskólabrú Keilis, Særún Rósa Ástþórsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Þorbjörg Guðmundsdóttir, kennari í Akurskóla, Þóra Guðrún Einarsdóttir, kennari í Heiðarskóla og   Þórunn Svava Róbertsdóttir, sviðsstjóri starfsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Frábær þátttaka var í búðunum en rúmlega fjörutíu manns af öllum skólastigum tóku þátt. Markmið með menntabúðum, þvert á skólastig, er að efla skólasamfélagið á Suðurnesjum í heild sinni, styrkja tengslanet fagfólks á svæðinu og deila þekkingu og reynslu með eflingu skólastarfs að leiðarljósi. 

Stefnt er að því að halda fernar búðir á skólaárinu en þær næstu eru á dagskrá í lok október. Stýrihópurinn vill hvetja alla áhugasama til þess að fylgjast með á facebooksíðunni Lærdómssamfélag á Suðurnesjum. Eins er kjörið að koma með tillögur og hugmyndir að efni og aðferðum til þess að kynna á Menntabúðum.

Til baka í fréttir