25. september 2017

Heilsuvika á Suðurnesjum

Heilsuvika á Suðurnesjum

MSS tekur fullan þátt í heilsuvikunni á Suðurnesjum fyrstu vikuna í október. MSS mun í tilefni vikunnar vera með þrjá viðburði sem eru opnir öllum án kostnaðar.

MSS ætlar að hefja heilsuvikuna á Ingólfi Sigurðssyni, sem ætlar að fjalla um sína reynslu á andlegum veikindum en hann er að kljást við kvíðaröskun. Ingólfur var einn af okkar allra efnilegustu leikmönnum í fótbolta. Hann fór ungur að árum í atvinnumennsku en lagði þann draum á hilluna aðeins tvítugur að aldri. Ingólfur ætlar að renna yfir söguna sína og svara spurningum úr sal. Viðburðurinn er 3. október og hefst kl. 20:00 í sal MSS á 3. hæð.

Miðvikudaginn 4. október ætlum við svo að hafa kyrrðarstund í sal MSS, þegar Rannveig L. Garðarsdóttir jógakennari ætlar að koma til okkar. Jóga er aldagamalt æfingakerfi sem samanstendur af líkamlegum og andlegum æfingum sem eiga að hjálpa okkur við að ná betri tökum á líkama og sál. Viðburðurinn hefst kl. 12:05. Þeir sem ætla sér að koma eru vinsamlegast beðnir um að hafa með sér dýnu.

Heilsuvikunni ætlum við svo að ljúka með leiðandi hugleiðslu föstudaginn 6. október. Hugleiðsla er aldagömul tækni til að virkja vitund og líkama, þó sérstaklega hugann. Hugleiðsla er frábær aðferð til þess að njóta þess að vera með sjálfum sér og sínum eigin hugsunum. Með leiðandi hugleiðslu kemur þú til með að veita sjálfum þér enn meiri athygli. Hugleiðslan hefst kl. 14:00 og fer fram í sal MSS á 3. hæð og má áætla að taki rúmlega klukkustund. Þeir sem ætla sér að mæta eru vinsamlegast beðnir um að hafa með sér dýnu, teppi og jafnvel eitthvað undir höfuðið.

Starfsfólk MSS hlakkar til að sjá sem flesta á þessum flottu viðburðum.

Til baka í fréttir