4. mars 2019

Heimsókn á bókasafn Reykjanesbæjar

Heimsókn á  bókasafn Reykjanesbæjar

Á dögunum fór 14 manna hópur frá MSS í heimsókn á bókasafn Reykjanesbæjar. Hópurinn samanstendur af pólskumælandi fólki sem eru þátttakendur í námsleiðinni Íslensk menning og samfélag. Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður bókasafnsins tók á móti okkur og byrjaði á því að fara yfir þá grunnþjónustu sem er í boði sem og segja frá viðburðum sem haldnir eru þar. Stefanía sýndi þeim þær fjölmörgu bækur, tímarit og fréttamiðla sem eru á pólsku og tók þar sérstaklega fram hversu mikilvægt það er að börn haldi líka áfram að lesa bækur á sínu móðurmáli.

Eitt af markmiðum námsleiðarinnar er að auðvelda fólki af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og vinnumarkaði. Við leggjum áherslu á að kynna grunnþjónustu í samfélaginu, eiga samskipti við opinberar stofnanir og vita hvar þær eru að finna.

Við enduðum heimsókn okkar á góðum kaffibolla og kruðerí á Ráðhúskaffi hjá Angelu. Hún sagði okkur frá sjálfri sér en hún er fædd í Portúgal, flutti til Íslands fyrir rúmlega 23 árum síðan og er í dag gift íslenskum manni og saman eiga þau þrjá drengi. Angela rekur kaffihúsið ásamt fjölskyldu sinni og sagði frá matseðlinum og hvernig venjulegur dagur er hjá henni í kringum reksturinn. Heimsóknin var afar ánægjuleg og viljum við þakka Stefaníu og Angelu fyrir frábærar móttökur.

Til baka í fréttir