8. ágúst 2019

Jógakennaranám í fyrsta skipti á Suðurnesjum

Jógakennaranám í fyrsta skipti á Suðurnesjum

Það eru ýmsar leiðir færar til þess að efla sig og styrkja á komandi hausti. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur lengi lagt metnað í að koma til móts við þarfir Suðurnesjabúa til endurmenntunar og sjálfseflingar hvers konar. Nú hefur miðstöðin sett á laggirnar jógakennaranám í samstarfi við Maríu Olsen, jógakennara.

Námið er alls 200 klukkustundir og er viðurkennt af jógakennarafélagi Íslands og Yoga Allience. Þetta er í fyrsta skipti sem nám af þessu tagi er í boði á svæðinu og því algjörlega nýtt tækifæri fyrir áhugasama að sækja sér slíka menntun í heimabyggð.

Særún Rósa Ástþórsdóttir, verkefnastjóri segir kjörið tækifæri að setja á fót samstarf af þessu tagi en námsframboð MSS er margvíslegt og miðar oftar en ekki út frá eftirspurn og þörfum í samfélaginu.  Meginhlutverk Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum er að efla sí- og endurmenntun Suðurnesjamanna, auka menntun og lífsgæði íbúa svæðisins og efla þannig einstaklinga og atvinnulíf. Í náminu er mikil áhersla lögð á verklega kennslu og að þátttakendur fái góðan undirbúning til þess að takast sjálfir á við starf jógakennara að loknu námi, þó margir sæki námið frekar til þess að efla eigin færni og dýpka þekkingu sína í jógafræðunum. Námsþættir í náminu eru meðal annars lífstíll jógans, anatomía, kennslutækni, orkustöðvar, jóga Nidra og aðrar slökunaræfingar, siðareglur jógakennara, viðskipti, skattur og fleira, heimspeki og æfingakennsla.

Fimmtudaginn 15. ágúst kl. 19:30 býður MSS til kynningar á náminu þar sem farið verður yfir skipulag námsins, námsþætti og fyrirkomulag. María Olsen, kennari, svarar spurningum þátttakenda og leiðir stutta slökun í lok kynningar. Allir hjartanlega velkomnir í þægilega jógastemningu hjá MSS.

Til baka í fréttir