Sjálfstraust og sjálfsmyndin

29. nóvember 2017

Í tilefni af 20 ára afmæli MSS var nóvember tileinkaður sjálfstrausti. MSS bauð því nýverið uppá fyrirlestra þar sem fjallað var um mikilvægi jákvæðrar sjálfmyndar og hvernig gott sjálfstraust getur skipt sköpum í vellíðan og velgengni í lífi og starfi. Einnig hafa nemendur okkar unnið verkefni tengd sjálfstrausti og má sjá afrakstur þess víða um húsnæði MSS.

Þann 2. nóvember komu þær Anna Lóa Ólafsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og Kristjana Þórarinsdóttir, sálfræðingur með fyrirlesturinn ,,Bíddu, er þessi mynd af þér eitthvað skökk?“ Í fyrirlestrinum fjölluðu þær um þá mynd sem við höfum af okkur sem einstaklingar, hvaða áhrif hún hefur á líf okkar þegar hún skekkist og hvernig við getum rétt hana við.

Logi Geirsson, fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í handbolta hélt fyrirlesturinn ,,Það fæðist enginn atvinnumaður“ þann 17. nóvember sl. en þar fjallaði Logi m.a. um sjálfstraust, markmiðasetningu, sjálfsstyrkingu og hugarfar.

Bæði erindin voru afar vel sótt og var salurinn á 5. hæð í Krossmóanum þéttsetinn. Gestir okkar voru á öllum aldri, ungt fólk af afreksbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja, nemendur MSS, kennarar, foreldrar og aðrir áhugasamir enda er mikilvægi sjálfstrausts ótvírætt. MSS þakkar öllum sem mættu kærlega fyrir komuna og minnir á að jákvætt hugarfar getur verið fyrsta skrefið að góðum árangri.

← Til baka

Afgreiðslutími skrifstofu MSS er kl. 9:00-16:00 mánudaga – fimmtudaga og 9:00 – 15:00 á föstudögum