15. apríl 2019

Stökkpallur – jákvæð samskipti og góð tengsl

Stökkpallur – jákvæð samskipti og góð tengsl

Undanfarnar vikur hefur hópur ungs fólks stundað nám í Stökkpallinum hjá MSS. Stökkpallurinn er ætlaður þeim sem horfið hafa frá námi og/eða eru án atvinnu og er unnið í samstarfi við Vinnumálastofnum og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga.

Viðfangsefnum námsins er ætlað að auðvelda þátttakendum að takast á við verkefni sem þeim eru falin á vinnustað eða hjá fræðsluaðila og stuðla þannig að jákvæðu viðhorfi til vinnumarkaðar og áframhaldandi náms. Þátttakendur vinna markvisst að eigin færniuppbyggingu með markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu, auknu fjármálalæsi, skipulögðum vinnubrögðum við upplýsingaleit og aukinni hæfni til að taka þátt í námi og starfi.

Mikil áhersla er lögð á að skapa aukin tengsl við samfélagið og atvinnulífið svo sem með heimsóknum á vinnustaði og stofnanir. Hópurinn hefur m.a. heimsótt bókasafnið, fengið kynningu hjá Reykjanesbæ, slökkviliðinu, Njarðvíkurskóla og Rokksafninu. Þá hafa ýmis fyrirtæki tekið vel á móti hópnum og má þá nefna Blue Car Rental, Bláa lónið, Skólamatur, Urta, saltframleiðsla og Hótel Berg.

Námskeiðið fer að mestu fram í 88 húsinu að Hafnargötu en hópurinn hefur einnig komið í húsnæði MSS til þess að vinna að skapandi verkefnum í listasmiðju, stafrænni smiðju og ljósmyndun sem dæmi. Í Stökkpallinum er mikið lagt upp úr samskiptum og sjálfstyrkingu og hópurinn skipuleggur til dæmis innkaup og hádegismat í sameiningu, þá þarf að huga að hagkvæmni og góðri nýtingu til þess að draga úr matarsóun. Einnig er mikilvægt að taka tillit til ólíkra þarfa allra í hópnum um leið og hver og einn þarf að sýna sveigjanleika og umburðarlyndi.

Námskeiðið hefur gengið vonum framar og er mjög ánægjulegt að sjá jákvæðar og góðar framfarir hjá þátttakendum og svo hversu vel hefur verið tekið á móti hópnum í fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu. Þegar líða fór að lokum námskeiðsins fékk hópurinn góða kynningu á námsframboði og tækifærum sem þeim bjóðast að loknum Stökkpallinum. Má þar m.a. nefna kynningu frá Keili, Menntaskólanum á Ásbrú, Fjölsmiðjunni, Fisktækniskólanum, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Menntaskólanum í Kópavogi. Hópurinn fékk einnig kynningu á námsframboði hjá MSS. Við viljum þakka öllum sem hafa komið að námskeiðinu kærlega fyrir gott samstarf sem verður vonandi áframhaldandi til framtíðar.

 

Til baka í fréttir