27. október 2014

NEGATIVE

NEGATIVE

NEGATIVE – Grundtvig samstarfsverkefni

MSS er þátttakandi í Grundtvig verkefninu NEGATIVE, „The influence of negative body image and psychological problems on completion rate in education for adolescents “ eða  áhrif neikvæðrar líkamsmyndar á brottfall eða hlutfall þeirra sem ljúka námi á fullorðinsárum. Eitt meginhlutverk MSS er að koma til móts við fullorðna námsmenn sem hafa horfið frá námi af einhverjum ástæðum og veita þeim tækifæri til þess að hefja aftur nám. Rannsóknir hafa sýnt tengsl á milli neikvæðrar líkamsmyndar og erfiðleika af sálfræðilegum toga sem síðan hefur áhrif á nám og námsframvindu.

Markmið NEGATIVE eru að:

  • tengja saman þá sem koma að rannsóknum á neikvæðri sjálfsmynd/sálfræðilegum vandamálum hjá ungu fullorðnu fólki og þá sem starfa á sviði fullorðinsfræðslu 
  • efla færni skólastjórnenda við að takast á við einstaklinga sem hafa neikvæða sjálfsmynd/líkamsmynd og stuðla að því að þeir geti fallið inn í hóp með öðrum og lokið námi
  • þróa sameiginlega áætlun um það hvernig megi fjölga einstaklingum sem ljúka námi á svæðum þátttakendanna
  • vera betur fær um að skilja fullorðna einstaklinga sem eiga við sálfræðileg vandamál að stríða og áhafa neikvæða líkamsmynd, hvernig má mæta þörfum þeirra og stuðla að áframhaldandi námi.

Hlutverk MSS í verkefninu snýr að því að veita samstarfsaðilum innsýn í þjónustu við þá sem hafa verið á vinnumarkaði en vilja auka við færni sína og hefja nám að nýju. Áhrif neikvæðrar líkamsmyndar á námsframvindu er nýtt sjónarhorn fyrir MSS en verður góð viðbót í náms- og starfsráðgjöf sem og í námi og kennslu hjá miðstöðinni.

Særún Ástþórsdóttir verkefnastjóri og Jónína Magnúsdóttir, náms- og starfsráðgjafi heimsóttu Stavanger í maí síðastliðnum og sátu m.a. fyrirlestur dr. Martin Persson frá Háskólanum í Bristol um neikvæða líkamsmynd. Á fyrirlestrinum var farið yfir mögulegar undirliggjandi ástæður fyrir neikvæðri líkamsímynd, áhrif fjölmiðla og samfélags og leiðir til þess að koma til móts við nemendur sem eiga í erfiðleikum vegna neikvæðrar líkamsímyndar. Fyrsta verkefni hópsins var að ganga á Preikistolen sem er vinsæll áfangastaður meðal Norðmanna og er meðfylgjandi mynd tekin þegar toppnum var náð eftir skemmtilega göngu. 

Til baka í erlend verkefni