Atvinnulífstenging


Markmið Samvinnu er að efla vinnufærni einstaklinga og auðvelda þeim að stíga sín fyrstu  skref í átt að starfi. Með aukinni þekkingu og stuðningi gefst þátttakendum tækifæri á að byggja upp færni sína og öðlast aukið sjálfstraust sem síðar getur leitt
til virkrar þátttöku á vinnumarkaði.

Náms- og starfsráðgjafar og fleiri sérfræðingar koma reglulega með fræðslu í
Samvinnu sem tengist vinnumarkaðinum og vinnustaðamenningu, fræðslu um kjör og réttindi svo eitthvað sé nefnt.

Starfstengd fræðsla

Námskeiðið byggist að mestu upp á því að þátttakendur vinni verkefni sem miða
að því að skoða sjálfa sig og efla þannig færni á vinnumarkaði. Farið er í ferilskrá, undirbúning fyrir atvinnuviðtal, raungert atvinnuviðtal og ýmis verkefni til að koma
auga á færni/styrkleika. Þátttakendur fá einnig undirbúning fyrir vinnuprufu á vinnumarkaði.

Vinnustaða heimsóknir

Þátttakendur í Samvinnu fara í vinnutengdar heimsóknir sem hluta af þeirra endurhæfingu. Samstarf við fyrirtæki á Suðurnesjum hefur verið til fyrirmyndar og er sífellt að aukast sem leiðir af sér frekari tækifæri. Flest fyrirtæki upplifa vinnutengdar heimsóknir sem samfélagslega ábyrgð og sem hluta af þeirra starfi. Leitast er við að hafa heimsóknirnar sem fjölbreyttastar og tilgangurinn er að kynna og sýna þátttakendum úrval starfa á svæðinu.

Vinnuprófanir

Markmið vinnuprófunar á vinnustað er að efla vinnufærni einstaklinga í samræmi við hlutverk og áherslur Samvinnu.  Markmiðið er einnig að auðvelda einstaklingum að stíga sín fyrstu skref í átt að starfi með þjálfun og markvissu skipulagi, að veita einstaklingum örugga og tímabæra endurkomu út á vinnumarkaðinn eftir fjarveru en jafnframt að einstaklingur öðlist þekkingu ákveðinna starfsgreina sem leitt getur til áframhaldandi náms. Með vinnuprófun er gert ráð fyrir að einstaklingur fái að kynnast nýjum störfum og hljóti jafnframt tilsögn um góð vinnubrögð. Ætlast er til að þátttakandinn leggi sitt af mörkum á vinnustaðnum, því ættu fyrirtækin hæglega að geta nýtt sér starfskrafta þeirra.


Eftirfylgni á vinnumarkaði

Þegar þátttakandi er kominn á þann stað að vera að stíga sín fyrstu skref í launað starf getur hann fengið stuðning frá ráðgjafa Samvinnu í formi eftirfylgdar.