Hreyfing
Hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan einstaklinga. Hún hefur jákvæð áhrif áöll líffærakerfi líkamans. Hún styrkir hjarta og æðakerfið og bætir andlega líðan, styrk og þol.
Samvinna vinnur heildrænt með hindranir þátttakenda og leggur því mikið upp úr því að bjóða upp á allskyns hreyfingu svo að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og sinnt því í endurhæfingu sinni.
Göngur
Göngutímarnir eru hannaðir fyrir alla, óháð getu eða fyrri reynslu, með það að markmiði að auka vellíðan, hreyfigetu og almenna líðan. Gengið er frá húsnæði MSS við Krossmóa 4, og hver ganga varir í 40-60 mínútur, en lengdin og hraðinn eru aðlagaðir að hverjum og einum. Ef veðrið er slæmt, færist gangan inn í Reykjaneshöllina, þar sem tryggt er þægilegt og öruggt umhverfi. Þessir tímar veita frábært tækifæri til að hreyfa sig á sínum eigin forsendum, njóta samveru og bæta bæði líkamlega og andlega líðan.
Þjálfun í tækjasal
Boðið er upp á þjálfun undir handleiðslu íþróttafræðings í Sporthúsinu og Orkustöðinni í Reykjanesbæ. Hreyfingin er einstaklingsmiðuð og geta þátttakendur mætt á öðrum tíma til að fylgja eftir áætlun sem íþróttafræðingur hefur sett upp með viðkomandi einstaklingi.
Einstaklingsmiðuð æfingaáætlun
Þátttakendum stendur til boða að fá einstaklingsmiðaða æfingaáætlun frá sérfræðingum.
Sund
Þátttakendum stendur til boða að fá sundkort sem veitir þeim aðgang að sundlaugum á Suðurnesjum.
Jóga
Boðið er upp á jóga og slökun þar sem jógakennari kemur og leiðir tímann. Um er að ræða notalega tíma þar sem þátttakendur fá jógadýnur, púða og teppi til afnota í tímum. Þátttakendur geta einnig sótt jógatíma sem eru kenndir utan Samvinnu.
Líkamsræktarstöðvar
Samvinna tekur þátt í að greiða niður líkamsræktarkort fyrir þá einstaklinga sem eru að sinna reglulegri hreyfingu á líkamsræktarstöð.
Fyrirlestrar
Reglulega koma sérfræðingar með fræðslu um mikilvægi hreyfingar, rétta líkamsbeytinu við hreyfingu, verki- og að lifa með verkjum svo eitthvað sé nefnt.