27. ágúst 2019

Svæðisbundið leiðsögunám - einstakt tækifæri á Suðurnesjum

Svæðisbundið leiðsögunám - einstakt tækifæri á Suðurnesjum

MSS býður uppá 22 eininga leiðsögunám með áherslu á Reykjanesið nú á haustönn en námið verður í boði án skólagjalda. Leiðsögunámið hefur það að markmiði að nemendur öðlist sérmenntun á sviði leiðsagnar og hafi færni og hæfni til þess að standast kröfur ferðaþjónustunnar hverju sinni um áreiðanleika og fagleg vinnubrögð.

Þessi atriði eru lykilþáttur í uppbyggingu ferðaþjónustu í nærumhverfinu og tækifæri til þess að styrkja innviði og efla ferðaþjónustuna til muna.

 

Aðgerðaráætlun á Suðurnesjum

Hluti af aðgerðaráætlun Mennta- og menningarmálaráðuneytis fyrir Suðurnesin snýr að hagnýtingu tækifæra og lagði MSS meðal annars til að svæðisbundið leiðsögunám yrði styrkt í þeim aðgerðum. Markmið með aðgerðinni væri að efla ferðaþjónustu á svæðinu og auka tækifæri til nýrra atvinnutækifæra. Með náminu eflist þekking meðal þátttakenda á Reykjanesinu og gefur þeim möguleika til að skapa ný atvinnutækifæri, sem getur leitt til aukins ferðamannastraums og lengingu dvalar ferðamanna á svæðinu.

Styrkur Mennta- og menningarmálaráðuneytisins gerir það að verkum að unnt er að bjóða Leiðsögunámið án skólagjalda og þurfa þátttakendur því eingöngu að greiða fyrir inntökupróf í erlendu tungumáli.

 

Skipulag og umfang námsins

Viðfangsefni námsins eru margvísleg en farið er yfir sögu Íslands, jarðfræði, gróðurfar, mannlíf, tengingu við þjóðsögur og bókmenntir auk hagnýtra atriða varðandi skipulag ferða, leiðsögutækni, samskipti og margt fleira. Hluti af náminu er svokallað svæðisbundið leiðsögunám þar sem áhersla er lögð á Reykjanesið.

Leiðsögunámið er kennt á haustönn 2019 og vorönn 2020. Kennt verður tvö kvöld í viku og einstaka helgar verða vettvangs- og æfingarferðir. Námið er 22 einingar og skiptist kjarnagreinar (17 einingar) og svæðalýsingar (5 einingar). Námið veitir rétt til inngöngu í Félag leiðsögumanna.

 

 

Til baka í fréttir