Við fundum fyrir áhuga hjá okkar erlenda starfsfólki að læra íslensku. Það er hins vegar oft erfitt fyrir einstaklinga að taka af skarið og skrá sig á námskeið og einnig er stundum hræðsla við að fara ein(n) á námskeið þar sem þú þekkir engan. Þegar við merktum þennan áhuga meðal okkar starfsfólks, settum við okkur í samband við MSS til að kanna hvaða leiðir væru í boði fyrir okkar starfsfólk. Okkur til mikillar ánægju kom í ljós að MSS býður uppá að koma með íslensku kennslu inn í fyrirtæki, sem hentaði okkur frábærlega. Með því að bjóða okkar starfsfólki að koma saman á vinnustaðnum, sem þau þekkja og líður vel í, trúðum við að við gætum kveikt áhuga fólksins okkar til að læra íslensku. Viðbrögðin komu okkur sannarlega á óvart og mun fleiri starfsmenn létu í ljós áhuga á að fá kennslu í íslensku heldur en við áttum á.
Vissulega eru áskoranir í því að koma með svona námskeið inn í fyrirtækið þar sem hættan er á því að nemendur séu mismunandi langt komnir í íslenskunni en það var leyst mjög vel af verkefnastjóra MSS. Náms- og starfsráðgjafar frá MSS hittu starfsfólkið fyrir námskeið og fóru allir í gegnum þarfagreiningarferli. Það sem kom líka ánægjulega á óvart var að liðsandinn jókst við að samstarfsfólk af mismunandi þjóðernum kom saman í sama tilgangi, að læra íslensku. Þeir sem lengra voru komnir aðstoðuðu þá sem voru að taka sín fyrst skref í íslenskunni og fólk kynnist betur við að leysa önnur viðfangsefni en bara að kynnast við vinnuna. Starfsfólk okkar var mjög ánægt með þetta framtak okkar og frábæra þjónustu MSS. Sjálfstraustið er aukið hjá okkar fólki og núna eru nokkrir búnir að skrá sig á framhaldsnámskeið í íslensku og ekki lengur hræðsla við að fara á námskeið fyrir utan fyrirtækisins, þar sem maður þekki engan.
Ég get mælt með þjónustu MSS að fullum hug og mun eftir sem áður halda áfram að leita til MSS, enda höfum við eingöngu mætt frábæru viðmóti, góðum sérfræðingum/leiðbeinendum og án undantekninga verið ánægð með þá þjónustu og þær afurðir sem hafa orðið til í samstarfi okkar við MSS.
Friðrik Einarsson hótelstjóri og einn af eigendum Hótel Northern Light Inn