Samvinna

Um Samvinnu

Þátttaka í atvinnuendurhæfingu hentar fólki sem:

  • Ekki er á vinnumarkaði vegna veikinda, slysa eða félagslegra erfiðleika en eru að vinna að endurkomu út á vinnumarkaðinn
  • Stendur höllum fæti á vinnumarkaði eða hefur misst vinnu
  • Vill á markvissan hátt vinna að því að breyta stöðu sinni og stefna út á vinnumarkaðinn á ný eða í frekara nám


Hugmyndafræði

Hugmyndafræði Samvinnu gengur út á að vinna að heilstæðri úrlausn með hindranir þátttakenda á einstaklingsmiðaðan hátt. Þátttakandi er sjálfur virkur í sinni endurhæfingu frá upphafi þar sem hann kemur með virkum hætti að gerð sinnar endurhæfingaráætlunar. Endurhæfingin fer að mestum hluta fram í hóp, t.d. með námskeiðum, fræðslu, hópefli og líkamsþjálfun en einnig á einstaklingsmiðaðan hátt þar sem tekið er mið að þörfum hvers og eins til dæmis með viðtölum eða þjálfun hjá fagaðilum, vinnuprufun eða starfsþjálfun.

Ummæli þátttakenda

Ég væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag ef ég hefði ekki haft starfsfólk og ráðgjafa Samvinnu sem leiðbeindu mér og studdu áfram í mínu bataferli. Til að finna mitt jafnvægi í lífinu í gegnum ýmiskonar hjálpleg námskeið, fyirlestra og viðtöl.
Samvinna er stórt, Samvinna er einstaklingsmiðað, Samvinna býr yfir frábæru og faglegu starfsfólki sem gerir allt til að hver og einn finni sína leið.
Mér er svo minnistæð Kvikmyndasmiðjan. Ég skráði mig en það tók mig nokkra daga að hafa mig í að mæta. Mér fannst þetta svo erfitt, fullt af nýjum andlitum sem ég hafði ekki verið í miklum samskiptum við. Þarna fór fólk vel út fyrir sinn þægindaramma, eftir á er svo gaman að sjá og hugsa að þetta var ekkert mál heldur bara gaman.
Mín leið lá svo í Skrifstofuskólann hjá MSS sem ekki hafði síður flott starfsfólk og í dag starfa ég á fjármálasviði hjá skrifstofu Samkaupa. Ég á Samvinnu svo margt að þakka. Ég er sterkari og sjálfstæðari einstaklingur sem hefur lært að tjá sig, standa upp og fara með nokkur orð fyrir fullum sal af fólki, vera samkvæm sjálfri mér og að ég er verðug manneskja

Takk Samvinna

Ráðgjafar Samvinnu

Hjá Samvinnu fer fram þverfagleg starfsendurhæfing þar sem markmiðið er að aðstoða fólk við að komast á vinnumarkað eða í nám á ný eftir heilsubrest.

Hver þátttakandi Samvinnu fær ráðgjafa sem er heilbrigðismenntaður og með viðurkennt starfsleyfi frá embætti Landlæknis. Ráðgjafinn og þátttakandinn gera einstaklingsmiðaða áætlun varðandi endurhæfinguna sem tekur mið af markmiðum og þörfum þátttakandans.

Ráðgjafinn styður þátttakandann í gegnum endurhæfingarferlið þar sem boðið er upp á regluleg viðtöl, markmið endurmetin og sett ný. Markmið einstaklinga snúa t.d. að því að bæta daglegar venjur, auka virkni, efla líkamlega og andlega heilsu. Einnig styðja ráðgjafar Samvinnu þátttakendur með ýmsa félagslega þætti s.s. tengt fjármálum, fjölskyldu, búsetu, upplýsingar um félagsleg réttindi, aðstoð við umsóknir og gagnaöflun fyrir hinar ýmsu stofnanir eins og stéttarfélög, lífeyrissjóði, Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar Íslands og fleira.

Ráðgjafar Samvinnu eru í samstarfi við hina ýmsu sérfræðinga og tengja þátttakendur við þá eftir þeirra þörfum og markmiðum.

Smelltu hér til að sjá nánar um ráðgjafa Samvinnu