Mannauðsstefna MSS

Liðsheild – Fagmennska – Vöxtur - Vellíðan

Markmið mannauðsstefnu MSS er að hæfni, þekking og viðhorf starfsfólks nýtist sem best hverju sinni svo ólíkum þörfum viðskiptavina sé mætt eins vel og kostur er.

Lögð er áhersla á að skapa sterka liðsheild, góð samskipti, tækifæri til þróunar og gott upplýsingaflæði. Mannauðsstefnan byggir m.a. á leiðarljósum MSS sem lúta að fagmennsku, samskiptum og framþróun.

 

Liðsheild

Við leggjum áherslu á uppbyggjandi umhverfi og hvatningu til góðra verka. Við hrósum hvert öðru fyrir vel unnin störf en rýnum jafnframt til gagns þegar það á við. Samskiptin á vinnustaðnum eiga að einkennast af jákvæðni og lögð er áhersla á virðingu, traust, trúnað og umburðarlyndi gagnvart hvert öðru og viðskiptavinum okkar.

Gott upplýsingaflæði innan vinnustaðarins skiptir okkur miklu máli, mikilvægt er að starfsfólk og stjórnendur gæti að góðri miðlun upplýsinga og sýni jafnframt frumkvæði að því að kalla eftir upplýsingum þegar þess er þörf.

Við viljum skapa sterka liðsheild og stuðla að því að hópurinn okkar sé samheldinn. Við fögnum reglulega jafnt litlum sem stórum áfangasigrum og gefum okkur tíma til að hafa gaman saman með margvíslegum hætti.


Fagmennska

Við leggjum mikið uppúr því að ráða hæfasta einstaklinginn á hverjum tíma. Horft er til fagþekkingar, þjónustulundar, persónulegra gilda og jafnréttissjónarmiða við ráðningu. Lögð er áhersla á öfluga nýliðaþjálfun við upphaf ráðningarsambands og að hlutverk hvers og eins sé skýrt og starfslýsing lýsandi.

Við viljum að allir starfsmenn hafi frelsi til að taka þátt í þróun og uppbyggingu starfseminnar. Lögð er áhersla á frumkvæði starfsmanna við að tryggja að þróun starfsins og gæði séu ávallt í fyrirrúmi.

Sveigjanleiki er okkur sérlega hugleikinn og leggjum við metnað okkar í að vera ávallt sveigjanleg þegar kemur að þörfum viðskiptavina okkar og samfélagsins alls.

 

Vöxtur

Við leggjum áherslu á lifandi umhverfi þar sem styrkleikar hvers starfsmanns fá að njóta sín og starfsmenn fá tækifæri til að eflast í starfi. Mikilvægt er að ólíkir persónuleikar fái að blómstra og tekið sé tillit til ólíkra skoðana og viðhorfa.

Allir starfsmenn fara í starfsmannasamtal einu sinni á ári þar sem þeim gefst tækifæri til að hafa áhrif á starf sitt m.a. með hliðsjón af styrkleikum og persónulegri og faglegri þróun.

Mikilvægt er að starfsmenn gæti þess að efla sífellt þekkingu sína og færni og hjá MSS er hvatt til þess að allir nýti tækifæri til sí- og endurmenntunar. Lagt er upp með að starfsmenn og stjórnendur beri sameiginlega ábyrgð á greiningu og framkvæmd fræðsluþarfa.

 

Vellíðan

MSS leggur áherslu á að vinnustaðurinn okkar sé fjölskylduvænn þar sem tekið er tillit til aðstæðna starfsmanna. Vinnutíminn getur verið sveigjanlegur sem virkar í báðar áttir, þ.e. starfsmaður getur sinnt persónulegum erindum á vinnutíma og sýnir MSS sveigjanleika á móti þegar þörf er á. MSS reynir að koma til móts við óskir um hlutastörf þegar því er við komið.

Mikilvægt er að gæta að vinnuaðstæðum, umhverfi og öryggi starfsmanna. Miklu máli skiptir að starfsmönnum líði vel og aðstæður og umhverfi vinnustaðarins sé gott og heilnæmt. Starfsmenn eru hvattir til að stuðla að vellíðan á vinnustað og skapa starfsumhverfi þar sem allir hafa rödd og er laust við einelti og kynferðislega áreitni.

Heilsa og líðan starfsmanna skiptir okkur miklu máli og hvetur MSS til heilsueflingar starfsmanna bæði inn á vinnustaðnum og utan.