8. desember 2025

Ársfundur MSS

Ársfundur MSS

Ársfundur Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum (MSS) var haldinn fimmtudaginn 27. nóvember. Kristín María Birgisdóttir, stjórnarformaður MSS, flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á að MSS sé hornsteinn í samfélaginu og veiti fólki á öllum aldri bæði raunhæf og fjölbreytt tækifæri til náms og endurmenntunar, ekki síst foreldrum sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, fólki sem hefur áhuga á að breyta um stefnu í lífinu og fólki af erlendum uppruna sem er að efla íslenskukunnáttu sína og stöðu í samfélaginu.

Í húsnæði MSS, á þriðju hæðinni í Krossmóanum, ríkir líflegt og margbreytilegt starf. Konur, karlar og kvár frá 18 ára aldri og upp í sjötugt með ólíkan bakgrunn, starfsreynslu, þjóðerni og tungumál tengjast í MSS í gegnum nám og starfsendurhæfingu.

Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðukona MSS, fór í gegnum ársskýrslu fyrir árið 2024. Þar kom fram að námsframboðið er mjög fjölbreytt og haldin voru námskeið af ýmsum toga, meðal annars starfstengd námskeið, tölvu- og tungumálanámskeið, tómstundanámskeið og fræðsla fyrir fatlað fólk. Íslenskukennsla er stór hluti starfsins hjá MSS og sífellt algengara er að íslenska sé kennd samhliða öðru námi.

Einnig kom fram í ársskýrslunni að náms- og starfsráðgjöf er öflugur hluti þeirrar þjónustu sem Miðstöðin býður upp á og að fjöldi fólks leitar sér ráðgjafar, meðal annars vegna ferilskrárgerðar, atvinnuleitar og raunfærnimats. Samvinna starfsendurhæfing er ómissandi hluti af starfsemi MSS með heildstæðu og einstaklingsmiðuðu úrræði fyrir þátttakendur.

Þjónusta við háskólanema heldur áfram að eflast en fjarnemar og próftakar frá háskólum víðs vegar af landinu nýta sér aðstöðu MSS í sínu nærumhverfi. MSS hefur jafnframt verið virkur samstarfsaðili í fjölbreyttum Evrópuverkefnum í gegnum árin og tengdust verkefnin árið 2024 ferðaþjónustu.

Í lok fundar deildu þau Halla Vilbergsdóttir og Eyþór Vilberg Harðarsson reynslu sinni hjá MSS. Bæði höfðu þau staðið á krossgötum í lífinu en með stuðningi í námi og endurhæfingu uppgötvuðu þau eigin styrkleika og styrktu trú á eigin getu.

Að loknum frásögnum þeirra Höllu og Eyþórs var ársfundi slitið og ljóst að Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur ómetanlegt gildi fyrir samfélagið á svæðinu.

Til baka í fréttir