7. október 2013

Ársfundur MSS 2. október 2013

Ársfundur MSS 2. október 2013

„Ég hló mikið þegar ég var farinn að reikna bókstafi og hvað þá að skilja hvernig það virkar“
Ársfundur MSS var haldinn 2. október sl. Fyrir utan hefðbundna ársskýrslu og ársreikning sem forstöðumaður fór yfir þá voru nokkur áhugaverð erindi.
Hjörleifur Hannesson starfsmaður MSS fór yfir könnun sem miðstöðin framkvæmdi meðal útskrifanemenda í 5 námsleiðum. Kannað var hvað nemendur í fimm tilteknum námsleiðum væru að gera í dag, hversu margir hafa haldið áfram í skóla, eru í vinnu og hvort námið hafði áhrif á þessa þætti. Niðurstaðan var einkar ánægjuleg og kom m.a. í ljós að 80% af þeim sem hafa útskrifast úr Menntastoðum héldu áfram í nám og 54% af þeim sem útskrifuðust úr Grunnmenntaskólanum.
Nemandi MSS í Menntastoðum Friðrik Sveinn Kristinsson sagði frá sinni skólagöngu en hann hafði gefist uppá skóla í 8. bekk. Þrátt fyrir  hann að hafa setið 9. og 10. bekkinn vegna skyldunnar þá  var hægt að telja verkefnin sem hann skilaði þar á fingrum annarrar handar. Hann fór í Grunnmenntaskólann vorið 2013 og þá m.a. í stærðfræði en hann hafði kviðið mest fyrir henni og var á tímabili að hugsa um að hætta við námið vegna þeirra hræðslu. Hann lét sig þó hafa það að mæta í stærðfræðina og  kom hún honum skemmtilega á óvart. Með hjálp góðs kennara þá hefur gengið vel í stærðfræðinni og hún í miklu uppáhaldi hjá honum í dag. Orðrétt sagði Friðrik „ég hló mikið þegar ég var farinn að reikna bókstafi og hvað þá að skilja hvernig það virkar“. Ég veit að ég er ekki sá síðasti sem hefur ekki af einhverjum ástæðum haft tök til að sækja sér þá menntun sem manni langar og mun ég mæla hiklaust með Grunnmenntaskólanum og Menntastoðum sem frábærum grunni í áframhaldandi nám“, sagði Friðrik.
Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ fór yfir söguna varðandi fjármagn í framhaldsfræðsluna en aðilar vinnumarkaðarins hafa barist fyrir fjármagni til að mennta einstaklinga á vinnumarkaði sem hafa ekki framhaldskólamenntun. Þar kom m.a. fram að 31% einstaklinga á aldrinum 35-74 ára hafa ekki lokið framhaldsskólamenntun. Það er of há prósenta þó hún hafi vissulega lækkað en fyrir um 10 árum var hún tæplega 40%. Margt hefur því verið gert rétt en margt óunnið ennþá. 
Á meðfylgjandi myndum er Friðrik S. Kristinsson nemi og Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
 

Til baka í fréttir