27. október 2014

Ársfundur MSS var haldinn 20. október sl.

Ársfundur MSS var haldinn 20. október sl.

Ég, fyrir mitt leyti, væri að öllum líkindum ekki í námi í dag ef ekki væri fyrir MSS. Það að ég geti stundað nám í heimabyggð er það sem skipti sköpum fyrir mig.

Ársfundur MSS var haldinn 20. október sl. Nýr stjórnarformaður MSS, Kristín María Birgisdóttir, flutti ávarp og forstöðumaður MSS fór yfir ársskýrslu og ársreikning. Fram kom að starf MSS er mjög öflugt og vel haldið utan um alla þætti hvort heldur um er að ræða nemendur, námsframboð, starfsfólk eða fjármál. Forstöðumaðurinn þakkaði bæði starfsmönnum og stjórn fyrir gott samstarf.

Fyrrverandi nemandi MSS í Menntastoðum Harpa Eiríksdóttir sagði sögu sína og af hverju hún valdi að koma í Menntastoðir hjá MSS.

„Ég athugaði hvaða námsleið gæti hentað mér og mínum aðstæðum best og leist vel á svokallað dreifinám í Menntastoðum hjá MSS sem hentar vel fólki sem er úti á vinnumarkaðnum. Það er óhætt að segja það að það var ekki létt verk að setjast aftur á skólabekk en ég hugsa að það sé ekki á mörgum stöðum tekið jafn vel á móti fólki í framhaldsnámi,  með svo ólíkan bakgrunn sem raun ber vitni. Þarna er fagfólk í hverju rúmi bæði kennarar og annað starfsfólk sem hugar vel að öllum þeim þáttum og margvíslegu vandamálum sem geta komið upp hjá fólki sem jafnvel hefur flosnað upp úr námi vegna námsörðugleika eða annarra vandamála“. Einnig lagði Harpa áherslu á að þjónusta náms- og starfsráðgjafa væri ómetanleg því líðan námsmanna hefði svo mikið að segja um gengi þeirra í námi og þar væru ráðgjafarnir hjá MSS að gera mjög góða hluti.
Harpa lét ekki staðar numið við Menntastoðir heldur hélt áfram og fór í Háskólabrú Keilis. Eftir brúnna lá leiðin í háskóla. „Það sem gerði útslagið um það hvaða skóli varð fyrir valinu var að í námi hjá Háskólanum á Akureyri er boðið upp á fjarfunda- og próftökuaðstöðu hjá símenntunarstöðvum víða um land og gat ég þar af leiðandi sótt þá þjónustu hjá MSS. Þar sem að ég þekkti vel til þeirrar þjónustu sem að boðið er upp á hjá MSS var það óhikað að ég sótti um skólavist hjá Háskólanum á Akureyri“ sagði Harpa.

Þorbjörg Óskarsdóttir fyrrverandi skjólstæðingur Samvinnu starfsendurhæfingu gaf stofnunninni málverk sem hún málaði eftir að hafa öðlast löngun til að mála aftur eftir fæðingarþunglyndi sem hún þjáðist af. Þorbjörg sagði meðal annars „Ég kom inn í Samvinnu árið 2008 og það breytti lífi mínu. Ég væri örugglega ekki stödd þar sem ég er í dag nema vegna þess tækifæris sem ég hef fengið hér. Í dag er ég farin að mála aftur og meira að segja kenna öðrum að mála. Ég hefði ekki trúað þessu fyrir nokkrum árum en ég ákvað að fara bara eftir því sem var verið að ráðleggja mér og sé ekki eftir því. Þetta er bara æðislegt!“ sagði Þorbjörg þegar hún afhenti stolt málverk sem hún hefur verið að mála yfir langan tíma og sagði vera lýsandi fyrir þá vinnu og þann þroska sem hún hefur farið í gegnum síðan 2008.
Það er ómetanlegt fyrir starfsfólk og stjórn MSS að fá að heyra frá notendum þjónustunnar því þeir eru jú besti mælikvarðinn á það starf sem er í gangi.

Það var létt yfir fundarmönnum við fundarlok og nokkuð ljóst að það er hugur í starfsfólki og stjórn að halda áfram á sömu braut.

Myndir: Harpa Eiríksdóttir háskólanemi og Þorbjörg Óskarsdóttir, þar sem hún afhendir Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumanni MSS myndina sem hún málaði.

Til baka í fréttir