31. mars 2023

Borðspil og Lego kubbar tæki til að huga að menntun og starfsframa

Borðspil og Lego kubbar tæki til að huga að menntun og starfsframa

Þrír starfsmenn MSS fóru á lokafund Erasmuns verkefnisins Echoo Play sem haldinn var í háskólaborginni Turku í Finnlandi. Fundirnir voru haldnir í húsnæði háskólans í Turku, fyrri daginn á rannsóknarsetri og seinni daginn á háskólasjúkrahúsinu. Þátttakendur voru frá Ítalíu, Frakklandi, Finnlandi og Íslandi.

 
Í verkefninu var hönnuð aðferðarfræði sem miðaði að því að nota LEGO kubba sem tæki til að hugsa um eigin starfsframa. Aðferðin miðast við að byggja myndhverfingar úr LEGO kubbum á meðan verið er að velta fyrir sér sterkum spurningum sem leiðbeinandi spyr ásamt ákveðnum verkefnum. Einnig var hannað borðspil sem er ætlað að hjálpa þátttakendum að finna styrkleika sína og möguleika og þannig undirbúa sig fyrir breytingar í menntun eða starfsframa. 
Í þessu borðspili sem kallast „Skills Academy“ þurfa þátttakendur að svara misjafnlega flóknum spurningum, vinna í sameiningu að lausn þrauta og útskýra hvernig farið var að því að leysa þrautir og svara spurningum. Fyrri daginn fengu samstarfslöndin spilið í hendurnar og prófuðu að spila það saman. Þetta gekk afar vel og verður spennandi að prófa með nemendahópum okkar. Seinni daginn mættum við í fundarherbergi sem hafði fjöldan allan af myndvörpum og hátölurum sem lýstu upp veggi herbergisins með mismunandi þemu s.s. Gaudi garðinum í Barcelona með yfirsýn yfir borgina, skógi með fuglatísti sem heyrðist öðru hverju eða rigningu í skógi. Umhverfið reyndist afar þægilegt til vinnu. 
Við gerðum áætlun um hvernig við ætluðum að tryggja að verkefnið beri árangur, bæði fyrir okkur sjálf persónulega, fyrir stofnun okkar, tengdar stofnanir og síðan umhverfið allt. Þessi ferð var afar ánægjuleg og góður endir á skemmtilegu verkefni sem lýkur í enda apríl 2023.

Til baka í fréttir