27. júní 2014

CAPWIN – Evrópuverkefni gegn brotthvarfi

CAPWIN – Evrópuverkefni gegn brotthvarfi

Markmið Evrópusambandsins gagnvart brotthvarfi fyrir árið 2020 eru metnaðarfull. Efnahagskreppa og fólksflutningar í Evrópu ýta undir erfiðleika sem mæta ungu fólki og stefna möguleikum þeirra til atvinnuþátttöku í hættu, auk þess að hafa í för með sér auknar félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar. Evrópska Leonardo da Vinci verkefnið CAPWIN miðar sérstaklega að brotthvarfsnemendum og fagaðilum sem starfa með þeim hópi. Aðilar frá sjö Evrópulöndum starfa saman að verkefninu en hver aðili leggur að mörkum reynslu og faglega sýn á brotthvarfsástand í hverju landi fyrir sig. Samstarfslöndin eru auk Íslands; Frakkland, Grikkland, Portúgal, Spánn, Rúmenía og Svíþjóð. Hver samstarfsaðili tengist ólíkum menntunarstigum, allt frá grunnskólum að fullorðinsfræðslu, og er áhersla lögð á að fá faglega innsýn hvort tveggja úr einka- og opinbera geiranum.

Markmið verkefnisins eru að þjálfa fagfólk til þess að vinna með brotthvarfsnemendum í gegnum Robert Michid aðferðina svokölluðu. Menntastofnunin Arc en Ciel, í Frakklandi hefur innleitt aðferðina sem einblínir á mikilvægi ákvarðana á daglegt líf en með því að skoða ferli ákvarðanatökunnar er aðferðinni ætlað að hafa varanleg áhrif á líf og líðan einstaklingsins. Notkun aðferðarinnar ætti að gera fagfólki kleift að hjálpa nemandanum að tengjast aftur markmiðum sínum og komast aftur af stað í námi. Aðferðin, sem er sálfélagsleg og byggir á greiningu á ákvarðanatöku, þvert yfir menntunarstig, gerir það mögulegt að aðlaga markmið og úrræði fagaðila og endurskapa tengsl við færni og getu hvers einstaklings. Í stað þess að benda á það sem viðkomandi gerir illa eða rangt er athyglinni beint að færni og styrkleikum um leið og einstaklingurinn skoðar eigin ákvarðanatöku og ábyrgð.

Ásamt því að þjálfa fagfólk í að beita aðferðinni, í viðtölum og samtölum með nemendum, verða útbúin kennslumyndbönd sem sýna dæmi um aðferðina í heild sinni. TP Teatern í Svíþjóð mun vinna myndböndin, en leikhópurinn sérhæfir sig í gagnvirku leikhúsi þar sem settar eru á svið ákveðnar aðstæður sem síðan þarf að leysa úr með hjálp áhorfenda. Myndböndin eru hugsuð til notkunar við þjálfun og til þess að sýna fram á mögulegan árangur með aðferðinni. Markmiðið er að kynna aðferðina fyrir öllum samstarfsaðilum og innleiða hana í stofnanir þeirra. Hver aðili stuðlar svo að kynningu á sínu landssvæði sem og á landsvísu. Hjá hverjum samstarfsaðila verða því þjálfaðir fagaðilar sem nota og kenna aðferðina.

Það er von samstarfsaðilanna að verkefnið CAPWIN muni hafa mikil og jákvæð áhrif á brotthvarfsnemendur og stuðli að aukinni velferð þeirra. Áhersla er lögð á styrkleika og færni en ekki á það sem illa hefur gengið eða á slæma ákvarðanatöku. Robert Michid aðferðin er gott verkfæri til þess að skoða ákvarðanir í daglegu lífi og til þess að hjálpa einstaklingnum að efla sjálfstraust sitt og hæfni í námi.  

Til baka í fréttir