8. ágúst 2014

ELVETE - Evrópuverkefni

ELVETE - Evrópuverkefni

ELVETE – Er nýtt samstarfsverkefni fjármagnað af Evrópusambandinu með áherslu á vinnumarkaðsdrifið iðn- /starfsnám og starfsþjálfun í Evrópu. Nafnið stendur fyrir Employer-Led Vocational Education and Training in Europe

Mörg Evrópulönd standa frammi fyrir því að munur er á þeirri færni sem atvinnulífið kallar eftir og þeirri þjálfun sem verknámsnemendur hljóta í iðn- eða verknámi og starfsþjálfun. Margir vinnuveitendur telja að nýtt starfsfólk sem ráðið er til starfa skorti starfsfærni, eða hafi ekki hlotið rétta þjálfun til að geta komið til starfa án vandkvæða.

Aðstandendur ELVETE verkefnisins eru hópur 12 evrópskra samstarfsaðila en Háskólinn í Wolverhampton í Bretlandi leiðir starfið. Stefnt er að því að verkefnið tengi saman þarfir vinnumarkaðarins fyrir fagkunnáttu og starfsþjálfun framhaldsskólanema í iðn- eða starfstengdu námi.

ELVETE verkefnið er styrkt af European Commission within the Lifelong Learning Programme sem er deild innan Evrópusambandsins er tekur á málefnum símenntunar og telst sem undirflokkur Leonardo da Vinci starfsins.

Upphafsfundur verkefnisins fór fram dagana 6 og 7. febrúar sl. í Wolverhampton og sá Háskólinn í Wolverhampton um skipulag fundarins. Á fundinum fengu samstarfsaðilarnir tækifæri til að kynnast og ræða drög að skipulagi fyrir komandi verkefnavinnu svo markmið verkefnisins verði uppfyllt.

Við fyrsta hluta verkefnisins munu samstarfsaðilarnir vinna í tveimur teymum við gagnaöflun og við að skrá raundæmi sem sýna fram á framúrskarandi vinnubrögð í samstarfi atvinnulífs og menntastofnana. Einnig verður horft til þess hvort fyrirtæki sýni skuldbindingu varðandi menntun í sínum geira. Annar hópurinn mun skrifa upp raundæmi út frá sjónarhorni fyrirtækja en hinn frá sjónarhorni menntastofnana og hvernig samskiptum þeirra við atvinnulífið er háttað. Sérstök áhersla verður lögð á að finna dæmi þar sem samstarf við atvinnulíf hefur skilað sér í aðlögun námsskrár að þörfum atvinnulífsins.

Rannsóknirnar munu verða aðgengilegar á vefsíðu verkefnisins, einnig samanburðar- og niðurstöðuskýrslur þar sem áhersla verður lögð á vel heppnað samstarf og sameiginlega fleti milli rannsókna og landa. 

Seinni hluti verkefnisins snýst svo um að taka upplýsingarnar sem safnað hafði verið í fyrri hlutanum og teikna upp módel af námsskrá sem verður tilraunakeyrð hjá tveimur af samstarfsaðilunum yfir sex mánaða tímabil. Hjá öðrum samstarfsaðilunum mun námskráin verða reynd hjá tilraunahópum til að fá endurgjöf frá menntastofnunum, vinnuveitendum auk aðila sem koma að reglugerð og stefnumótun við hönnun námskráa.

Að loknu tilraunatímabilinu mun lokaútgáfa námskrárinnar verða sett saman, hún mun einnig innihalda notkunarleiðbeiningar og tillögur til aðila sem koma að reglugerð og stefnumótun í námi. Lokaafurðin mun kynnt um alla Evrópu með það að markmiði að leggja rækt við stofnanir sem bjóða iðn-/ verknám og koma á bættu flæði milli námsins sem boðið er uppá í þeim stofnunum og þarfa atvinnulífsins fyrir ákveðna færni eða kunnáttu.

Annar fundur samstarfshópsins mun verða haldinn í Plovdiv í Búlgaríu dagana 15 og 16. október 2014 og þar verður áhersla lögð á að ræða gagnaöflunina auk þess sem verða drög að tilraunanámskránni verða gerð.

Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu Háskólans í Wolverhampton: www.wlv.ac.uk/elvete

Til baka í fréttir