4. október 2022

Fræðslumiðstöðvar deila þekkingu sinni og reynslu með hvor annarri

Fræðslumiðstöðvar deila þekkingu sinni og reynslu með hvor annarri

Tæplega hundrað manns sóttu haustfund fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem fór fram á Akureyri 27. og 28. september í húsnæði SÍMEY, Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Símennt, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, stóðu sameiginlega að fundinum sem bæði var staðbundinn og fór fram í gegnum fjarfundarbúnað. Gestir fundarins voru frá öllum þeim ellefu símenntunarmiðstöðvum sem tilheyra Símennt, sem og frá Starfsmennt, Iðunni og Rafmennt ásamt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Í upphafi fundarins tilkynnti formaður Símenntar, Sólveig Hildur Björnsdóttir framkvæmdastjóri Mímis, um nafnabreytingu á samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, áður Kvasir, sem samþykkt var samhljóða á nýafstöðnum aðalfundi samtakanna. Leitað var til fjölmargra um álit og tillögur að nýju nafni, og var niðurstaðan um val á nafninu Símennt afgerandi.

Leiðarstef fundarins var samtal og samvinna innbyrðis enda er mikil gróska og nýsköpun hjá miðstöðvum í framhaldsfræðslunni. Tólf erindi fóru fram í fjórum vinnustofum og þar af tvö erindi frá MSS. Erindin fjölluðu um fjölbreyttar kennsluaðferðir í framhaldsfræðslu og verkfæri við miðlun náms, áskoranir og tækifæri í markaðs- og kynningarmálum, samstarf miðstöðva við vinnustaði um framhaldsfræðslu og þróun rafrænnar ráðgjafar. Þá voru einnig erindi um starfstengda íslenskukennslu, samstarf um virkniúrræði, þarfagreiningar fyrir fræðslu á vinnustöðum, nám fatlaðs fólks, sem og fjölmenningu og þjónustu við flóttamenn.

Vel heppnaður fundur og greinilegt að mikil gróska og kraftur er meðal fræðslumiðstöðva um þessar mundir.

Myndirnar hér fyrir neðan sýna starfsmenn MSS þær Birnu Jakobsdóttur og Kristínu Hjartardóttur flytja sín erindi á fundinum. Erindin þeirra snéru að þarfagreiningum innan fyrirtækja og námskeiði sem hannað hefur verið fyrir vinnustaði tengt fjölmenningarlegu samfélagi.

Til baka í fréttir