15. október 2012
Fræðslustjóra að láni
Í gær undirrituðu ISS Ísland og fulltrúar þriggja starfsmenntasjóða, Starfsafls, Landsmenntar og Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks, samning um fræðslustjóra að láni fyrir ISS Ísland. ISS er með stærstu fyrirtækjum á Íslandi með um 780 starfsmenn þar af eru um 550 félagsmenn með aðild að Starfsafli. Þetta er stærsta verkefni sjóðanna hingað til og mikið ánægjuefni að fá ISS Ísland inn í verkefnið Fræðslustjóri að láni. Ráðgjafinn sem mun sinna hlutverki Fræðslustjóra að láni er Birna V. Jakobsdóttir verkefnastjóri atvinnulífs hjá MSS.
ISS Ísland þjónustar fyrirtæki og stofnanir á ýmsum sviðum m.a. á sviði ræstinga, veitinga, stoðþjónustu og fasteignaumsýslu. Þjónustulausnir eru margvíslegar og sérsniðnar að hverjum og einum viðskiptavini, ein stök þjónustulausn eða samþætting á þjónustuþáttum. Fyrirtækið hefur vaxið stöðugt og býr að góðum tengslum við móðurfyrirtækið ISS í Danmörku.
Hlutverk fræðslustjóra að láni er sem fyrr að gera þarfagreiningu á fræðslumálum og koma með tillögu að símenntunaráætlun sem er sérsniðin fyrir fyrirtækið. Þessi þjónusta Starfsafls er í boði til allra fyrirtækja sem hafa félagsmenn Eflingar, Hlífar og VSFK innan sinna raða. Sambærileg þjónusta er í boði hjá öðrum fræðslusjóðum eins og Landsmennt og SVS. Oftar en ekki sameinast sjóðirnir um þessa þjónustu enda séu félagsmenn frá mismunandi stéttarfélögum að störfum innan fyrirtækisins eins og er hjá ISS Ísland.
Fyrirtækjum á Suðurnesjum býðst þjónusta Ráðgjafa að láni og er hægt að hafa samband við Birnu í síma 412-5952 / 421-7500 eða birna@mss.is
Á myndinni má sjá frá undirskrift samnings um Fræðslustjóra í gær, f.v. Birna V. Jakobsdóttir, fræðslustjóri að láni, Hólmfríður Einarsdóttir, sviðsstj. ræstinga ISS Ísland, Eyjólfur Bragason, Landsmennt, Ástríður Valbjörnsdóttir, SVS, Sveinn Aðalsteinsson, Starfsafli, Valdís A. Steingrímsdóttir, Starfsafli, Guðmundur Guðmundsson, forstjóri ISS Ísland, Sigríður Héðinsdóttir, starfsmannastjóri ISS Ísland, Jón Trausti Jónsson, framkvæmdastjóri ISS Ísland, Íris Jensen, kennslustjóri ISS Ísland.