15. janúar 2021

Frumkvöðlahugsun hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum

Frumkvöðlahugsun hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum

„Ef maður nýtir sér fólkið sem hefur þekkingu og vill miðla henni þá auðveldast allt.“

(Guðbergur Reynisson, fyrrverandi þátttakandi í Sölu-, markaðs- og rekstrarnámi og fyrirmynd Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í námi fullorðinna 2020)

                              

Árið 2020 var ár áskorana, þar sem COVID-19 hafði lamandi áhrif á mannkynið allt. 2021 verður ár sóknar og lausna, þar sem stjórnvöld hafa hvatt menntastofnanir til að taka upp hanskann og styðja fólk til góðra verka, sérstaklega þegar kemur að frumkvöðlastarfi og nýsköpun. MSS hefur tekið þessari áskorun af alvöru og skipulagt metnaðarfulla námsleið í Sölu-, markaðs- og rekstrarnámi samkvæmt námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins þar sem frumkvöðla og nýsköpunarhugsun ræður ríkjum.

Tveir glæsilegir hópar fóru af stað í vikunni. Annað námskeiðið er kennt á ensku enda er stór hluti íbúa svæðisins enskumælandi og með fjölmargar hugmyndir að mismunandi rekstri. Hitt námskeiðið er kennt á íslensku. Nemendur eru á fjórða tug og munu sækja námið fram á næsta vetur.

Sjö vel valdir leiðbeinendur, allir sérfræðingar á sínu sviði, munu leiða þátttakendur á hagnýtan hátt gegnum fjölda námsþátta sem kenndir eru bæði í staðnámi og gegnum kennslukerfi.

Í upphafi náms er farið í gegnum námstækni og námsdagbók hjá námsráðgjafa, Skúla Frey Brynjólfssyni. Eftir það leiðir Vilborg Arna ævintýramaður og pólfari þau í gegnum markmiðasetningu. Þá styður Soffía Haraldsdóttir þátttakendur gegnum grundvallaratriði í upplýsingatækni, með áherslu á forrit og lausnir sem nýtast við rekstur. Hún mun einnig leiða þau við gerð kynningarefnis, verkefnastjórnun og áætlanagerð í töflureikni. Einar Sigvaldason mun leiða nám í Frumkvöðlafræði og fyrirtækjasmiðju, þar sem þátttakendur læra að stofna eigin fyrirtæki. Einnig mun Einar kenna Sölutækni og viðskiptatengsl, Framsögn og framkomu og Gerð viðskiptaáætlana. Náminu mun ljúka með kynningar- og sölusýningu þar sem nemendur geta kynnt og selt vörur sínar og þjónustu og jafnvel selt fjárfestum hlut í fyrirtækjum þeirra. Helgi Þór Jónsson mun leiða þátttakendur um heima hagnýtrar markaðsfræði með námskeiði í Almennri markaðsfræði, Markaðsrannsóknum, Markaðssetningu á netinu, Markaðssetningu og samfélagsmiðlum og Samningatækni. Pálmar Guðmundsson mun síðan leiða rekstrarnámskeiðin Verslunarreikningur og Lykiltölur og lausafé.

Þessi námsleið er ætluð fullorðnum einstaklingum sem hafa áhuga á að styrkja sig á sviði markaðssetningar, sölu og rekstri og hafa hugsanlega hug á að stofna eigið fyrirtæki. Reynsla og fyrri þekking þátttakenda mun spila stórt hlutverk í námsleiðinni, þar sem þeir fá að nýta eigin sköpunarkraft og verkgleði til að skapa eitthvað nýtt og spennandi, sem getur orðið samfélaginu að gagni þegar fram liða stundir.

 

Hrannar Baldursson

Verkefnastjóri

 

Til baka í fréttir