30. nóvember 2020

Fyrirmynd í námi fullorðinna 2020

Fyrirmynd í námi fullorðinna 2020

Á aðalfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) sem haldinn var fimmtudaginn 27. nóvember, var Guðbergur Reynisson frá MSS valinn fyrirmynd í námi fullorðinna ásamt Ragnhildi Gísladóttur sem stundaði nám hjá Fræðsluneti Suðurlands. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa breytt stöðu sinni eftir þátttöku í úrræðum FA, sýnt framúrskarandi árangur, frumkvæði, kjark og náð að yfirstíga ýmiss konar hindranir.

Guðbergur kom til MSS árið 2013 og stundaði nám í Sölu-, markaðs- og rekstrarnámi. Guðbergur stofnaði fyrirtækið Cargoflutningar eftir miklar breytingar árið 2009 þar sem fjárhagur og einkalíf fór „í rúst“ að hans sögn ásamt því að verða atvinnulaus. Hann var fljótlega kominn með 3 sendibíla sem fóru á milli Reykjavíkur og Suðurnesja daglega.

Í ávarpi sem Guðbergur flutti á fundinum undir yfirskriftinni "reynslusögur námsmanna" sagði hann m.a.:
,,Árið 2013 las ég svo auglýsingu í Víkurfréttum um Sölu-, markaðs- og rekstrarnám hjá MSS, þegar ég las hvað væri kennt varð ég ákveðinn í að þótt ég hefði engan aukatíma yrði ég að fara í þetta nám og skráði mig daginn eftir. Í stuttu máli var námið skemmtilegt og vel sett framm fyrir mann eins og mig sem er með athyglisbrest. Í lokin gerðum við viðskiptaáætlun og höfðum einnig lært undirstöðuatriði í markaðssetningu en þetta hafði mig lengi langað að læra. Í kennslutímum leyfði ég kennurunum að nota mitt fyrirtæki Cargoflutninga sem dæmi og áttaði mig þá á að ég væri kannski með eitthvað í höndunum sem hægt væri að byggja á. Fljótlega voru Cargoflutningum komnir með 8 bíla og brjálað að gera“.

Guðbergur leggur mikla áherslu fólk opni augun fyrir þeim möguleikum sem eru í samfélaginu og voru lokaorð hans; „Fyrsta sem þarf auðvitað að gera er að hundskast út og leita að lausnum það kemur enginn til þín í sófann. Sem sagt rífðu þig upp og farðu út að gera eitthvað og ekki gefast upp þó á móti blási“.

MSS óskar Guðbergi innilega til hamingju með tilnefninguna sem hann verðskuldar svo sannarlega. Hann hefur sýnt og sannað að með þrauseigju og dugnaði má láta drauma sína rætast.

 

Til baka í fréttir