7. febrúar 2022

Viðurkenning - fyrirmynd í námi fullorðinna

Viðurkenning - fyrirmynd í námi fullorðinna

María Sigurðardóttir, fyrrverandi nemandi MSS hlaut í liðinni viku viðurkenningu sem fyrirmynd í námi fullorðinna hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins en valið nær yfir allt landið. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa breytt stöðu sinni eftir þátttöku í úrræðum FA, sýnt framúrskarandi árangur, frumkvæði, kjark og náð að yfirstíga ýmiss konar hindranir.

María hóf nám hjá MSS í Skrifstofuskóla I og fór svo í Menntastoðir sem hún lauk í desember 2019. Þaðan lá leið hennar í Háskólagrunn HR og útskrifaðist hún þaðan með ígildi stúdentsprófs í júní 2021. 

María fann sig ekki grunnskóla og hafði ekki farið í neitt frekara nám. Röð óvæntra atburða olli því að María tók þá ákvörðun að breyta um stefnu í lífinu þegar hún var orðin 23 ára gömul. Hún fór á fund náms- og starfsráðgjafa hjá MSS sem fór yfir stöðuna og möguleikana með henni og úr varð að hún skráði sig í nám hjá MSS.

Fljótlega kom í ljós að hún fann sig vel í náminu og vildi læra meira. María telur námið hafa gengið auðveldar fyrir sig vegna jákvæðs hugafars hennar, seiglu og mikils vilja. 

Að hennar sögn er hún nokkuð viss um að þetta hefði ekki farið svona vel án þess stuðnings sem hún fékk hjá MSS. Í dag er María í áfengis- og vímuefnaráðgjafanámi hjá SÁÁ og að hennar sögn þá þakkar hún MSS fyrir stóran hluta af sinni skólagöngu.

Við hjá MSS þökkum Maríu falleg orð í okkar garð og erum afskaplega glöð yfir dugnaði hennar og velgengni og óskum henni alls hins besta.

Hér má smella fyrir nánari umfjöllun og myndir hjá Víkurfréttum

Til baka í fréttir