21. nóvember 2014
Fyrrum Menntastoðanemi í vettvangsnámi hjá MSS
Undanfarnar vikur hefur Hólmfríður Karlsdóttir verið hjá MSS í vettvangsnámi. Hólmfríður stundar nám í Uppeldis- og menntunarfræðum í Háskóla Íslands en hluti af náminu felst í því að kynna sér starfsemi á vettvangi og hefur Hólmfríður áhuga á að skoða nám og kennslu fullorðinna. Í vettvangsnáminu fylgdist Hólmfríður með kennslu í íslensku, námstækni og stærðfræði svo eitthvað sé nefnt. Auk þess vann hún viðtalsverkefni þar sem hún ræddi við nokkra nemendur sem eru eða hafa verið nemendur í Menntastoðum hjá MSS. Viðtölin voru tekin með það að markmiði að skoða hvaða áhrif námið hafði á líf þeirra, hvers vegna þeir höfðu ákveðið að fara í nám og hvort þeir hefðu upplifað einhverjar hindranir í námi sínu. Að lokum unnu Hólmfríður og Særún, verkefnastjóri Menntastoða saman úr niðurstöðunum og skrifuðu blaðagrein um efnið.
Hluti af starfi MSS snýr að því að efla hugmyndir um nám og kennslu fullorðinna, hvort sem er hjá leiðbeinendum eða þátttakendum. Með umfjöllun um áhrif náms á líf og störf fullorðinna nemenda er veitt innsýn í fræði og kenningar um nám fullorðinna og vakin athygli á kostum þess að fara í nám.
Það er ánægjulegt að segja frá því að Hólmfríður tók fyrstu skrefin að háskólanámi í Menntastoðum haustið 2010 og fór þaðan í háskólabrú Keilis. Hún þekkir því leiðina vel og hefur kynnst því hvernig það er að vera fullorðinn námsmaður að stíga sín fyrstu skref. Við hjá MSS þökkum Hólmfríði kærlega fyrir samveruna og samstarfið og óskum henni velfarnaðar í náminu.