19. desember 2025

Hátíðleg útskrift 17. desember 2025

Hátíðleg útskrift 17. desember 2025

Hátíðleg útskrift fór fram miðvikudaginn 17. desember í sal á 5. hæð í Krossmóa. Alls útskrifuðust 63 nemendur af fimm námsleiðum MSS: Menntastoðum, Skrifstofuskóla 1, Sölu- og markaðsnámi (SMR 1), fagnámskeiði í félags- og heilbrigðisþjónustu og Leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú. Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðukona MSS, flutti ávarp við athöfnina og lagði áherslu á að mikill fjölbreytileiki einkenndi námsleiðir í MSS og aldrei væri of seint að hefja nám. Þá hélt Weronika Lewandowska, útskriftarnemi úr Menntastoðum, ræðu fyrir hönd nemenda. Í ræðu sinni fjallaði hún meðal annars um að sjálfstraust hennar sem námskona hefði verið lítið í upphafi og að hún hefði því verið óörugg til að byrja með. Hún sagði þó að með tímanum hefði hún öðlast trú á eigin getu og mun hún hefja nám í Keili eftir áramót. Saga Weroniku er einkennandi fyrir marga þátttakendur sem koma í nám í MSS. Að lokinni útskriftarathöfn flutti Hildur Hlíf, tónlistarkona úr Keflavík, hugljúfa jólatónlist. Líflegri önn er nú senn að ljúka og óskum við öllum nemendum okkar innilega til hamingju með áfangann. Við hlökkum til nýrrar annar með nýjum og gömlum nemendum og hvetjum alla til að kynna sér námsframboð vorannar en þar er úr nógu að velja.

Til baka í fréttir