19. apríl 2017
Heimsókn fyrrum nemenda í viku símenntunar
Í tilefni af viku símenntunar fengum við nokkra fyrrum nemendur okkar í heimsókn í hádeginu. Þau Eybjörg Helga Daníelsdóttir, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir og Guðbergur Reynisson sögðu reynslu sína af námi og nýjum tækifærum.
Eybjörg lauk Menntastoðum hjá MSS og starfar nú hjá KPMG hér í Krossmóa, að hennar sögn kom það henni mjög á óvart hversu vel það gekk í náminu og að hún gæti vel lært þó hún hefði áður haldið annað.
Jóhanna lauk Menntastoðum og hóf í kjölfarið nám í sálfræði hjá H.A. Hún starfar nú sem verkefnastjóri hjá Keili. Jóhanna sagði m.a. frá því hversu ánægjulegt það getur verið þegar lífið tekur u-beygju með tilheyrandi tækifærum og nýrri reynslu.
Guðbergur lauk Sölu- markaðs- og rekstrarnámi hjá MSS en hann er eigandi og framkvæmdastjóri Cargo flutninga, hann nefndi að námið hefði boðið uppá allt það sem hann hafði langað að læra. Námið heufr nýst mjög vel og verið hluti af örum vexti fyrirtækisins undanfarin ár en Guðbergur stofnaði fyrirtækið þegar hann hafði misst vinnuna í kjölfar hrunsins árið 2009.
Það er frábært að heyra sögur þeirra sem hafa tekið skrefið og farið í nám, öðlast ný tækifæri og tekið hina margumræddu u-beygju í lífinu. Við erum afar stolt af þessum nemendum fyrir að deila reynslu sinni sem og öllum þeim sem hafa farið í gegnum nám hjá okkur. Það eru fjölmörg dæmi um frábæran árangur nemenda okkar að loknu námi og þau eru flottar fyrirmyndir fullorðinna námsmanna. Takk fyrir komuna í dag og heimsóknina!