14. september 2015
Hreysti - Frábær leið til að ná jafnvægi á milli andlegrar og líkamlegrar heilsu
Hvað er Hreysti?
Hreysti er ný endurhæfingarleið hjá Samvinnu sem er starfsendurhæfingardeild innan Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum. Hreysti er byggist á þremur meginþáttum: Hreyfingu, Núvitund og Fræðslu. Ásamt því er fjölþætt heilsutengd fræðsla stór partur af námsskeiðinu. Fyrsti hópurinn í Hreysti fór af stað hjá Samvinnu í febrúar 2015 og stóð námsskeiðið í átta vikur en verkefnið er þróunarverkefnið styrkt af VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Árangur verkefnis var góður og bæði andleg og líkamleg líðan þátttakanda batnaði til muna.
Hreysti er sérsniðin endurhæfing ætluð þeim sem þurfa að byggja sig upp líkamlega og auka andlega vellíðan en þátttakendum er vísað í Hreysti af ráðgjöfum VIRK. Endurhæfingin er góð leið fyrir þá einstaklinga sem eru að koma sér af stað í hreyfingu og þurfa til þess aðstoð og utanumhald. Einnig þá sem eru að glíma við stoðkerfisvanda eða eru að jafna sig eftir slys eða veikindi.
Heildstæð úrlausn á vanda hvers þátttakanda
Í endurhæfingunni er unnið á heildrænan hátt út frá líkamlegri, sálrænni og félagslegri stöðu einstaklingsins og leitast við að finna heildstæða úrlausn á vanda hvers þátttakanda. Þungamiðja endurhæfingarinnar er hreyfing undir leiðsögn fagaðila bæði einstaklingsmiðuð og í hóp ásamt kennslu í núvitund og ýmiskonar fræðslu. Farið er yfir heilsufar og líkamlegt ástand í viðtali við ráðgjafa og markmið sett en einstaklingurinn hefur aðgang að ýmsum sérfræðingum á meðan endurhæfingu stendur. Markmið endurhæfingarlínunnar er að einstaklingurinn styrki sig líkamlega og nái að tileinka sér hreyfingu í daglegu lífi til að auka líkamlega og andlega vellíðan. Einnig að hann verði meðvitaðri um stöðu sína og þá ábyrgð sem hann hefur gagnvart sjálfum sér og heilsu sinni. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að verkefni á borð við Hreysti gefi góðan árangur varðandi heilsufar, líðan og virkni. Heilsufar og líðan þeirra sem tóku virkan þátt í námsskeiðinu batnaði. Allir virkir þátttakendur tóku framförum á hreyfiprófi hjá sjúkraþjálfara og námskönnun sem framkvæmd var bendir til þess að námsskeiðið hafi nýst þátttakendum vel.
Er orkumeiri, verkjaminni og meðvitaðri um takmörkin mín
Harpa Hauksdóttir var ein þeirra sem að tóku þátt í námsskeiðinu og náði frábærum árangri.
„Ég lenti í vinnuslysi þegar ég fékk fiskikar ofan á höfuðið sem hafði þær afleiðingar að ég tognaði í hálsi, herðablaði og taugar urðu fyrir hnjaski. Hreyfigeta mín skertist, ég þjáist af verkjum sem leiddu til þess að ég varð óvinnufær í kjölfar slyssins. Í svona ástandi er oft erfitt að halda í jákvæðnina og andleg líðan mín versnaði. Læknir vísaði mér til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og var mér svo vísað í Hreysti af ráðgjafanum mínum hjá VIRK. Ég var hvorki í góðum málum líkamlega né andlega og óskaði þess að fá betri líðan. Ég hef alltaf stundað einhverja hreyfingu með nokkrum hléum en í Hreysti náði ég að koma hreyfingunni inn og stundaði hana af kappi fjórum sinnum í viku. Fyrir nokkrum árum hóf ég að vinna mikið með andlega líðan mína, í Hreysti fékk ég svo kærkomin verkfæri til þess að ná enn betri árangri í þeirri vinnu. Að taka þátt í Hreysti hefur hjálpað mér að ná jafnvægi á milli andlegrar og líkamlegrar heilsu, við erum öll svo ólík og þurfum að læra að hlusta á okkur sjálf og þekkja takmörkin okkar, það var svo sannarlega nálgunin sem við fengum í Hreysti. Stuðningurinn frá kennurunum var frábær og svo var hópurinn náinn og hvetjandi.“
„Ég náði góðum árangri á námsskeiðinu, er orkumeiri, verkjaminni og meðvitaðri um takmörk mín. Ég er komin með skýra framtíðarsýn, stefni á djáknanám, með stoppi í Háskólagáttinni á Bifröst og hugsa hlýtt til þess að hjálpa fólki í framtíðinni með verkefni lífsins,“ segir Harpa að lokum.
Næsta námsskeið af Hreysti hefst 14. september. Ef þú telur að Hreysti gæti hentað fyrir þig ekki hika við að senda póst og fá frekari upplýsingar á netfangið maria@mss.is