29. ágúst 2025
Lagasmiðja – þar sem hugmyndir verða að hljómum
Í gær hófst þriggja daga námskeið í Lagasmiðju. Þar koma þátttakendur saman til að semja tónlist undir leiðsögn Sigrúnar Sævarsdóttur Griffiths. Lagasmiðjan er haldin tvisvar á ári hjá Samvinnu starfsendurhæfingu og hefur reynst bæði valdeflandi og skemmtilegt ferðalag fyrir þátttakendur. Við erum afar heppin að njóta aðstöðu í Sandgerðiskirkju undir námskeiðið og fá hljóðfæri að láni frá Tónlistarskólum Suðurnesjabæjar. Fyrri reynsla í tónlist er ekki nauðsynleg – allir geta lagt sitt af mörkum í skapandi og öruggu umhverfi. Ferlið snýst um að víkka þægindarammann, njóta samstarfs og upplifa gleðina sem fylgir því að skapa tónlist frá grunni. Frá ágúst 2018 hefur Samvinna starfsendurhæfing tekið þátt í þessu einstaka tónlistarverkefni og var þar með fyrsta starfsendurhæfingastöðin á Íslandi sem gerðist aðili að Lagasmiðjunni. Verkefnið hefur sýnt sig að vera bæði styrkjandi og uppbyggjandi – þátttakendur þróa hæfileika sína, öðlast sjálfstraust og upplifa gleði í þessu skapandi ferli, í öruggu og stuðningsríku umhverfi. Hljómsveit Samvinnu hlaut nafnið 360°, sem ákveðið var af nokkrum þátttakendum. Hún er jafnframt fyrsta hljómsveitin á vegum MetamorPhonics á Íslandi. MetamorPhonics er samfélagsmiðað, óhagnaðardrifið félag sem skapar einstakt og opið umhverfi til tónlistarsköpunar. Sigrún Sævarsdóttir Griffiths stofnandi MetamorPhonics stýrir verkefninu hér á landi, og í Bretlandi. Þátttakendur læra, skapa og semja lög saman í þriggja daga lotum, þar sem allir – óháð fyrri tónlistarreynslu – geta tekið þátt. Leiðbeinendur tryggja að allir fái tækifæri til þátttöku og sköpunar. Eftir þátttöku í Lagasmiðju geta einstaklingar sótt um að verða meðlimir í Kordu Samfóníu. Korda Samfónía var stofnuð árið 2021 og samanstendur af fjölbreyttum einstaklingum úr samfélaginu – allt frá reyndu tónlistarfólki úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og nemendum við Listaháskóla Íslands, til sjálfmenntaðra tónlistarmanna, og jafnvel fólks sem hefur aldrei áður stundað tónlist. Þar nýtur hver rödd jafnrar virðingar og saman verður til stórbrotin tónlist sem byggir á samkennd, sköpun og sameiginlegri upplifun. Lagasmiðja sýnir glöggt hvernig tónlist og skapandi vinna geta styrkt einstaklinga og skapað ný tækifæri – bæði innan starfsendurhæfingar og í víðara samfélagslegu samhengi. Samvinna hefur átt nokkra fulltrúa meðal þátttakenda í hljómsveitinni, og verkefnið byggir á öflugu samstarfi við tónlistarskóla og nærumhverfið á svæðinu.