20. janúar 2015
Menntastoðir ómetanlegur grunnur
Atli Dungal Sigurðsson var nemandi í Menntastoðum haustið 2010 en hann skilaði nýverið lokaverkefni sínu í B.A. námi í ensku hjá Háskóla Íslands og ber ritgerðin heitið „Of Wit, Wisdom and Wizardry: Gandalf in The Lord of the Rings and Harry Dresden from The Dresden Files”. Atli býr nú ásamt eiginkonu sinni og dætrum í Lundi í Svíþjóð þar sem hann stundar mastersnám. Atli sagði okkur frá því hvaða áhrif Menntastoðir höfðu á líf hans og störf:
„Árið 2010 tók ég ákvörðun sem ég mun aldrei sjá eftir og ákvað að skella mér aftur á skólabekkinn eftir margra ára fjarveru. Fyrst ég hafði ekki tekið stúdentspróf á hinn „hefðbundna“ máta þurfti ég að byrja í Menntastoðum og mikið er ég ánægður að svo var. Námið og fólkið sem ég kynntist í bekknum var akkúrat það sem ég þurfti á að halda, efnið var krefjandi og kennararnir frábærir í alla staði.“
Það er alltaf ánægjulegt að heyra fréttir af Menntastoðanemendum okkar og gleðilegt að sjá þegar þeir ná markmiðum sínum eins og Atli hefur gert.
„Þegar ég lauk námi hjá MSS hóf ég strax nám í Keili á Hugvísindasviði því stefnan hjá mér hafði alltaf verið að fara í ensku í Háskóla Íslands. Þremur árum síðar, eftir haustönn 2014/15, hef ég lokið því námi og er fluttur til Lundar í Svíþjóð, þar sem ég er að læra bókmenntir, menningu og miðlun - sérhæft í enskum bókmenntum. Þar væri ég ekki í dag ef það hefði ekki verið fyrir MSS og Menntastoðir.
Grunnurinn sem Menntastoðir lagði fyrir mig sem námsmann er ómetanlegur og ég er svo sannarlega ánægður með að hafa farið í þetta frábæra nám!”
Við óskum Atla innilega til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í áframhaldandi námi.