7. júní 2013

MSS og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í samstarf

MSS og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í samstarf

MSS og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í samstarf

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er þekkingar- og þjónustumiðstöð fyrir fötluð börn, fjölskyldur þeirra og fagfólk sem starfar í þeirra þágu. Eitt af meginhlutverkum Greiningarstöðvar er að veita fræðslu á sviði fatlana.
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins býður upp á margvísleg fræðslunámskeið um ýmis efni sem tengjast fötlunum barna, s.s. um ýmsar fatlanir, um þjálfunar- og meðferðarleiðir og fleira. Námskeiðin eru ætluð foreldrum og aðstandendum, sem og þeim er vinna með börnum með þroskafrávik og fatlanir.
„Mjög mikilvægt er að auðvelda foreldrum og fagfólki aðgang að fræðsluefni hvort sem er á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Greiningarstöðin hefur kennt námskeið sín í fjarkennslu í mörg ár en nú hefur verið ákveðið að nýta aðrar aðferðir en hafa verið notaðar hingað til og var ákveðið að ganga til samstarfs við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum við það“ segir Guðný Stefánsdóttir sviðsstjóri Greiningarstöðvarinnar.
Hlutverk Miðstöðvar símenntunar er að veita aðgang að fjarkennsluumhverfi, leiðbeina sérfræðingum Greiningarstöðvarinnar og umsýsla með námskeiðunum. Greiningarstöðin sér hins vegar um námskeiðin eins og verið hefur.
 „Við erum mjög ánægð með þessa samvinnu en mjög mikilvægt er að allir landsmenn hafi aðgang að fræðslu en á litlum stöðum getur verið mjög erfitt að ná saman hóp og því mikilvægt að aðrir möguleikar séu til staðar“ segir Guðjónína Sæmundsdóttir. „Einnig finnst okkur mikilvægt að sú þekking sem við erum að byggja upp nýtist öðrum og víðar um landið“.
Þessi námskeið munu fara af stað nú í júní og verður spennandi að sjá hvort þessi aðferð muni ekki gefast vel og að auðveldara verði fyrir aðstandendur og fagfólk að fræðast um þessi mál.
 
 

Til baka í fréttir