3. október 2017

MSS og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar undirrita samstarfssamning

MSS og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar undirrita samstarfssamning

Ferðaþjónustan á Íslandi er orðin einn af burðarstoðum atvinnulífsins og er mikilvægt að tryggja gæði og samkeppnishæfni greinarinnar. Til þess þurfa margir aðilar að taka höndum saman bæði yfirvöld, menntaaðilar og ekki síst greinin sjálf.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur ásamt þremur öðrum símenntunarmiðstöðvum, undirritað samstarfssamning við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, um miðlun fræðslu til fyrirtækja og starfsmanna  í ferðaþjónustu. Hæfnisetrið er tímabundið þróunarverkefni sem er vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Til þess var stofnað á grundvelli skýrslu sem Stjórnstöð ferðamála gerði árið 2016, þar sem fjallað var um hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu. 

Hlutverk símenntunarmiðstöðvanna í verkefninu verður að heimsækja ferðaþjónustufyrirtæki, kynna þeim og starfsmönnum þeirra möguleika á fræðslu, fjármögnun og arðsemi af slíku starfi. Í framhaldinu verður síðan komið á markvissu fræðslustarfi innan ferðaþjónustunnar. Reynslan af þessu verkefni miðar síðan að því aðferðafræðin verði nýtt til að koma á markvissu fræðslustarfi fyrir ferðaþjónustuna á landsvísu.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur verið í miklu samstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki á undanförnum árum og mun starfsfólk á næstu mánuðum heimsækja fyrirtæki í greininni og bjóða upp á greiningu fræðsluþarfa og mögulega sérsniðna fræðsluáætlun í kjölfarið. Markmiðið er að auka gæði ferðaþjónustunnar til framtíðar.

Til baka í fréttir