10. ágúst 2023

Námskeið fyrir fylgdarlaus ungmenni

Námskeið fyrir fylgdarlaus ungmenni

Í vor hélt MSS námskeið fyrir ungmenni á flótta, sem komið hafa til landsins án forráðamanna. MSS fékk styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála til að halda námskeiðið.

Mikil vinna og undirbúningur fór í námskeiðið en nemendurnir voru hjá okkur alla virka daga í sjö vikur. Markmiðið var að hafa námskeiðið skemmtilegt og fjölbreytt og koma til móts við áhuga og þarfir nemendana með áherslu á einfalda íslenskukennslu og samfélagsfræðslu. Einnig þótti okkur mikilvægt er að styðja við félagslega þáttinn til að þau kynntust betur og gætu notið félagsskapar hvert af öðru. Það er að okkar mati mikilvægt að styrkja þau sem einstaklinga, til að þau séu betur í stakk búin að takast á við lífið og komandi verkefni.

Mikil ánægja var hjá ungmennunum, en þau fengu að kynnast samfélaginu, lærðu grunninn í íslensku, fóru í vettvangsferðir, hópeflisleiki, elduðu dýrindis mat og nutu þess að kynnast hvert öðru enn betur. Þetta var frábær hópur af ólíkum einstaklingum, frá ólíkum löndum með fjölbreytt tungumál. Okkur finnst það hafa verið forréttindi að kynnast þessu unga fólki, sem eru nú vonandi betur í stakk búin til að takast á við næstu verkefni í lífinu.

Til baka í fréttir