15. maí 2012

Nýir tímar

Nýir tímar

Fyrstu skrefin!

Fullorðinsfræðslan á Íslandi hefur tekið miklum breytingum hin síðari ár og þá ekki síst vegna breytinga á vinnumarkaði. Á svæði þar sem atvinnuleysi fer úr rúmlega 1% í 8% á stuttum tíma (mest á Suðurnesjum eða um 15% þegar verst var) kallar á skjót viðbrögð og úrlausnir. Árið 2006 var einum stærsta vinnustað á Íslandi lokað þegar bandaríski herinn yfirgaf landið. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) ásamt öðrum á svæðinu, brugðust við með ráðgjöf og námskeiðahaldi og þar sem þetta gerist á uppgangstíma gengu margir fljótlega í annað starf. Fjöldi fólks þurfti að skipta algjörlega um starfsvettvang og takast á við breytingar í kjölfar brotthvarfsins og sama hvað fólki hefur fundist um veru varnarliðsins á Íslandi þá er staðreyndin sú að höggið fyrir Suðurnesjamenn var mikið. Það má segja að enn sé verið að fást við þetta stóra högg því við hrunið 2008 voru fyrrum varnarliðsstarfsmenn margir hverjir með minnstan starfsaldur þegar segja þurfti upp fólki og lentu því í annarri uppsögn. MSS hefur á þessum tíma verið að þróa námskeið og ráðgjöf til að mæta þörfum þeirra sem þurfa að takast á við atvinnumissi. Þá hafa gefist tækifæri til að skoða hvað aðrar þjóðir hafa verið að gera og sífellt verið að skoða hvað virkar og hvernig komum við til móts við sem flesta. Vorið 2011 bauð MSS nokkrum einstaklingum að taka þátt í námskeiði sem var styrkt í gegnum Nordplus Voxen. Námskeiðið, sem fékk heitið Fyrstu skrefin, hafði það að markmiði að styðja við og styrkja einstaklinginn til að takast á við breytingar í lífi sínu og bæta stöðu sína til betri vegar.
Til þess að ná þessu fram var námskeiðinu skipt upp í 3 megin þemu: sjálfstyrkingu, samfélagslega vitund og skapandi starf. Þá væri það ekki síður markmið með námskeiðinu að þátttakendur fengju að kynnast atvinnumarkaðnum og þeim tækifærum sem þar eru. Þá var ákveðið að leggja áherslu á upplýsingar um sveitarfélagið og aðgengi að þjónustunni sem það hefur upp á að bjóða og hvað réttindi og skyldur liggja á herðum einstaklingsins annars vegar og sveitarfélagsins hins vegar. Helstu markmiðin með skapandi vinnu er að efla skapandi hugsun og gefa þátttakendum tækifæri til að tjá sig á skapandi hátt.
Kennsluaðferðirnar voru: fyrirlestrar, hópavinna, umræður, heimsóknir í fyrirtæki og skapandi starf. Námskeiðið tókst mjög vel og náði þeim tilætlaða árangri að aðstoða þátttakendur við að taka fyrstu skrefin í átt að betra lífi. Skapandi þátturinn var frekar viðamikill í námskeiðinu miðað við önnur námskeið hjá MSS en þar sem umræðan í dag snýst mikið um að efla þann þátt hvort sem er úti á atvinnumarkaðnum eða í námi var ákveðið að fara þessa leið. Þátttakendur á námskeiðinu töluðu um mikilvægi þessa þáttar og hvernig hann hafi aukið sjálfstraustið,  sem hefur gert það að verkum að við höfum þróað önnur námskeið með samskonar sniði. Sjálfstyrking var stór þáttur af námskeiðinu enda ljóst að breytingar í lífi fólks og erfiðar aðstæður hafa áhrif á sjálfstraustið. Með því að aðstoða einstaklinga við að sjá tækifærin sem felast í breytingunum í stað þess að einangrast og festast í vonleysi og jafnvel kvíða, er verið að stíga mikilvægt skref fyrir þá sem nýta sér þennan þátt. Þátttakendur kynntu sér vinnumarkaðinn með því að heimsækja fyrirtæki og fengu góða fræðslu um nærumhverfið, svo sem mikilvægar stofnanir og starfsemi þeirra. Í Fyrstu skrefunum var líka lögð áhersla á ráðgjöf hjá náms- og starfsráðgjafa, bæði fyrir og eftir námskeið og svo aftur að einhverjum tíma liðnum frá því að námskeiði lauk. Þátttakendum líkaði vel þessi eftirfylgni og fyrir suma var þetta mjög hvetjandi. Í viðtölum sem voru gerð tæpu ári eftir að námskeiði lauk kom í ljós að staða flestra þátttakenda var mun betri en árið áður. Hluti þeirra var komin í nám, aðrir í starf og einhverjir voru á leiðinni í nám og nýttu viðtalið sem hvatningu í sjálfu sér. Þegar þátttakendur voru spurðir hvort og þá hvernig námskeiðið hefði orðið til þess að ákvörðun var tekin um að taka fyrsta skrefið voru svörin mörg svipuð: hjálpaði mér að taka fyrstu skrefin út fyrir þægindahringinn, fór að hugsa um breytingar, opnaði augun mín, gaman að kynnast nýju fólki og læra eitthvað nýtt, öðlaðist trú á sjálfa mig ofl.
Þetta hvetur okkur til að halda áfram á svipaðri braut enda sjáum við það m.a. sem okkar hlutverk að aðstoða fólk með fyrstu skrefin í átt að betra lífi. Síðan þessu námskeiði lauk hefur MSS aukið fjölbreytni námskeiða sem byggja m.a. á sjálfstyrkingu, hreyfingu og skapandi starfi. Þessi námskeið hafa gengið vel og sýnt fram á að vera bæði styðjandi og styrkjandi fyrir þátttakendur og þeir talið sig betur í stakk búna til að taka fyrstu skrefin í átt að betra lífi. Við munum halda áfram að vera sveigjanleg og prófa okkur áfram varðandi þá þætti sem virka hverju sinni. Aðstæðurnar sem við erum að upplifa í dag eru ólíkar öllu öðru sem við höfum kynnst og því eðlilegt að við prófum okkur áfram og séum tilbúin að fara nýjar leiðir í þeirri viðleitni okkar að aðstoða einstaklinga að fóta sig í breyttu umhverfi. Námskeiðið Fyrstu skrefin var einmitt eitt af fjölmörgum nýjum skrefum sem MSS hefur tekið undanfarin ár og við munum halda ótrauð áfram.
Fyrir hönd MSS
Anna Lóa Ólafsdóttir

Til baka í fréttir