21. nóvember 2025

Öflugt samstarf MSS og Bláa Lónsins um íslenskukennslu starfsfólks

Öflugt samstarf MSS og Bláa Lónsins um íslenskukennslu starfsfólks

Á dögunum rifjuðum við hjá MSS upp grein sem Bláa Lónið birti fyrr á árinu inn á Linkedin.com, þar sem fjallað var um íslenskunámskeið sem haldið var í samstarfi fyrirtækjanna. Þar útskrifuðust um 60 starfsmenn Bláa Lónsins og var áfanganum fagnað með formlegri athöfn og viðurkenningu til allra þátttakenda. Í greininni lagði Bláa Lónið sérstaka áherslu á jöfnuð, velferð og faglega þróun starfsfólks. Þar segir Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs, menningar og vellíðunar: „Við viljum skapa umhverfi þar sem allir upplifa sig velkomna og hafa tækifæri til að blómstra. Að styðja starfsfólk til að læra íslensku er stór hluti af því—þetta er fjárfesting í fólki og sterkari vinnustaðarmenningu.“ Við hjá MSS erum hjartanlega sammála þessum orðum og teljum þau endurspegla í alla staði þau gildi sem liggja til grundvallar okkar eigin starfsemi. Starfsfólk sem fær tækifæri til að efla færni sína upplifir aukið sjálfstæði, meiri samfellu í starfi og sterkari tengingu við samfélagið. Samstarfið við Bláa Lónið hefur verið faglegt og árangursríkt og er jafnframt hluti af víðtækara samstarfi MSS við fyrirtæki á Suðurnesjum. Fjölmörg fyrirtæki á svæðinu hafa á undanförnum árum leitað leiða til að efla hæfni starfsfólks með markvissri fræðslu, hvort sem er í tungumálum, endurmenntun eða starfsþróun. Við viljum þakka Bláa Lóninu kærlega fyrir traust og góða samvinnu og óska öllum þátttakendum innilega til hamingju með þennan mikilvæga áfanga.

Til baka í fréttir