19. janúar 2023

Um 800 einstaklingar hafa sótt námskeiðið Fjölmenning auðgar hjá MSS

Um 800 einstaklingar hafa sótt námskeiðið Fjölmenning auðgar hjá MSS

Fjölmenning auðgar er verkefni sem Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) hefur unnið og þróað í nánu samstarfi við Velferðarnet Suðurnesja. Okkar aðkoma að þessu verkefni er utanumhald námskeiða tengt fjölmenningu fyrir starfsfólk stofnana á Suðurnesjum.

Við á Suðurnesjum erum rík af fjölmenningu og hefur samfélagið okkar auðgast með auknum fjölbreytileika. Með námskeiðinu Fjölmenning auðgar, er starfsfólki stofnana gefinn kostur að auka meðvitund sína um jákvæða eiginleika fjölmenningar. Markmiðið er að styrkja sterka heild opinberrar þjónustu á Suðurnesjum, tryggja jákvætt viðmót og faglega þjónustu fyrir alla, auk vellíðunar og öryggis starfsfólks í síbreytilegu og fjölbreyttu umhverfi. Áhersla er lögð á viðhorfavinnu sem fer fram með til dæmis umræðum og verkefnum.

Hingað til hafa fimm starfsmenn MSS haldið utan um og sinnt fræðslu en námskeiðin hafa annars vegar verið haldin í húsakynnum MSS eða í ólíkum stofnunum á Suðurnesjum. Hátt í 800 manns hafa setið námskeiðin frá því að þau fóru af stað í lok ágúst á síðasta ári. Af þessum heildarfjölda hafa flestir grunn- og leikskólar setið námskeiðin eða munu gera það á næstu vikum en starfsfólk frá öllum stofnunum innan Velferðarnetsins hafa komið á námskeiðið. Það er þó virkilega gaman að segja frá því að starfsmenn íþróttamannvirkja allflestra sveitarfélaganna og nánast allt starfsfólk Sýslumannsembættisins á Suðurnesjum hafa setið námskeiðið.


Mikil ánægja hefur verið með námskeiðin og við munum áfram bjóða upp á hópabókanir út apríl fyrir stofnanir á Suðurnesjum, hægt er að hafa samband við Eydísi hjá Velferðarneti Suðurnesja (eydis.r.armannsdottir@reykjanesbaer.is) eða Kristínu hjá MSS (kristin@mss.is).

Við teljum samfélagslega ábyrgð fólgna í frekari fjölmenningarfræðslu á Suðurnesjum og því hefur MSS aðlagað námskeiðið að fyrirtækjum og eru þau í boði á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku. Nú þegar hafa verið haldin þrjú námskeið fyrir fiskvinnslufyrirtæki á Suðurnesjum. Frekari upplýsingar um námskeið fyrir fyrirtæki er hægt að fá hjá Lindu hjá MSS (linda@mss.is)
Hér má sjá auglýsingu frá Velferðarneti Suðurnesja fyrir námskeið Fjölmenning auðgar þar sem er áherslan er á stofnanir á Suðurnesjum.

Fyrir hönd Fjölmenningarteymis
Kristín og Linda

Til baka í fréttir