15. október 2021

Útskrift í Sölu-, markaðs og rekstrarnámi

Útskrift í Sölu-, markaðs og rekstrarnámi

Föstudaginn 8. október 2021 útskrifuðust 22 nemendur úr Sölu-, markaðs og rekstrarnámi. Kennt var í tveimur hópum, einum íslenskumælandi og öðrum enskumælandi.

Þetta var ævintýraleg námsleið að mörgu leyti, en þátttakendur upplifðu síðan í janúar mikla skjálftavirkni á Reykjanesi, eldgos og síðan var COVID-19 duglegt að trufla okkur, en brugðist var við með því að skella tímum á netið þegar ekki var raunhæft að mæta á staðinn. Nemendur eiga mikið hrós skilið fyrir góða þátttöku og ástundun.

Leiðbeinendur voru hver öðrum betri, en það var fagmaður úr atvinnulífinu í hverju horni, sem hjálpuðu þátttakendum við stofnun fyrirtækis, kenndu upplýsingatækni, markmiðasetningu, samskipti, markaðssetningu út frá nýjum leiðum, sölutækni og margt annað sem snýr að rekstri fyrirtækja.

Námsmenn luku náminu með því að setja upp sölusýningu. Þar var margt spennandi að sjá. Þátttakendur kynntu margmiðlunarfyrirtæki, brugghús, vörugeymslur, sumarbústaðaáætlun, veitingahús, snyrtivörur, innanhúss fallhlífarstökk og margt fleira áhugavert. 

Til baka í fréttir