19. desember 2019

Útskrift námsleiða hjá MSS

Útskrift námsleiða hjá MSS

Þann 18. desember var haldin sameiginleg útskrift námsleiða hjá MSS en að þessu sinni útskrifuðust 68 nemendur af fimm námsleiðum. Útskrifað var af Skrifstofuskóla I og II, Fagnámskeiði fyrir starfsfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu, Grunnmenntaskóla og Menntastoðum.

Það var hátíðarbragur yfir athöfninni og áfanganum fagnað innilega af nemendum, starfsfólki MSS, kennurum og gestum. Það er mikilvægur áfangi að ljúka námi og efla sig þannig í lífi og starfi.

Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðukona MSS hélt ávarp og nefndi þar m.a. mikilvægi þess að hafa augu á markmiðum sínum og draumum og halda áfram veginn þar til þeim hefur verið náð. Ávarp nemenda flutti María Sigurðardóttir sem útskrifaðist frá Menntastoðum. María sagði sögu sína í námi og hvernig hún tók ákvörðun um að öðlast menntun og stefna að markmiðum sínum.

Við óskum öllum útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann, megi ykkur vegna vel í framtíðinni og allir ykkar draumar rætast.

Til baka í fréttir