23. maí 2012
Útskrift úr Grafískri hönnunarsmiðju
Nýlega útskrifuðust 26 námsmenn úr Grafískri hönnunarsmiðju.
Námskeiðið Grafíska hönnunarsmiðja gefur þátttakendum innsýni inn og helstu hugtök og tækni sem notast er við í grafískri hönnun. Kennt er á Adobe forritin: Illustrator (teikning), Photoshop (myndvinnsla) og InDesign (umbrot). Markmið námskeiðsins er að námsmenn nái tökum á grundvallaratriðum hvers forrits og verði í stakk búnir til að vinna einföld verkefni með samþættingu allra forritanna og geti komið frá sér hugmyndum á tölvutæku formi. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Guðmundur Rúnar Lúðvíksson myndlistarmaður. Námskeiðið byggði mest á verklegum æfingum í tölvu og raunverkefnum. Kennt er eftir námskrá MSS sem samþykkt er af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námsmenn sömdu og settu upp barnabækur, bókamerki, nafnspjöld og bæklinga og margt fleira. Námskeiðinu lauk með sýningu á verkefnum nemenda. Grafísk hönnunarsmiðja verður aftur á dagskrá í ágúst og nú þegar er vel bókað í hana. Kennt verður á mánudögum og miðvikudögum frá kl 19:00 til 22:00 í 10 vikur.
Á myndinni má sjá útskriftarnemendur ásamt leiðbeinandanum Guðmundi Rúnari.
