2. maí 2012
Útskrift úr Járn- og trésmiðju
MSS hélt námskeið í járn- og trésmíði í mars. Námið byggði á því að leyfa þátttakendum að kynnast helstu þáttum í járn- og trésmíði undir handleiðslu fagaðila. Farið var í þætti eins og efnisfræði og endurvinnslu með tilliti til umhverfisfræða.
Námið var unnið í samtarfi við Atafl og Daníel Sigmundsson sem lögðu til húsnæði og fagþekkingu og VMST sem styrkti þátttakendur.
Atafl lagði til járn- og trésmíðaverkstæði sín ásamt leiðbeinendum þar. Þar fengu nemendur að kynnast raunvinnu í þessum iðngreinum og í hverju starfsemi Atafls er fólgin.
Daníel kom inn í námskeiðið með endurvinnsluhlutann en hann hefur sérhæft sig í að endurnýta timbur og járn og fengu nemendur að kynnast þeim fræðum.
Þátttakendur unnu síðan raunverkefni undir handleiðslu leiðbeinendanna og gátu blandað saman úr báðum smiðjum ef þeir kusu svo. Þátttakendum var heimilt að prófa sig áfram og bæði hanna eitthvað á eigin spýtur eða smíða ákveðna hluti sem leiðbeinendur lögðu til.
Óhætt er að segja að hópurinn hafi tekið þeirri áskörun vel að hanna frá eigin brjósti því þegar hópurinn útskrifaðist 4.apríl var haldin sýning á afurðum námskeiðsins sem voru hvort öðru skemmtilegri og hagnýtari.
Á myndinni má sjá þátttakendur ásamt leiðbeinendum.
