24. nóvember 2015
Vísir hf. - Ágústa Óskarsdóttir
Reynsla Vísis af samstarfinu við MSS er mjög góð og það er traustvekjandi að geta leitað til þeirrar reynslu sem þar er þegar farið er í krefjandi verkefni eins og það sem nú er unnið að hjá okkur.
Nám sem svarar þörfinni
Eins og flestir vita hafa staðið yfir miklar breytingar hjá Vísi á árinu. Fyrirtækið hefur verið að færa saman fjórar fiskvinnslur í tvær og eru þær báðar í Grindavík. Í öðru húsinu er saltfiskverkun þar sem unnin eru bæði saltflök og flattur fiskur, en í hinu er unninn ferskur fiskur, frystur og léttsaltaður. Ef frá eru taldar tvær flatningsvélar í saltvinnslunni er allur annar búnaður íslenskur.
Með öðrum orðum hugvit, hönnun og framleiðsla tækjanna í þessum hátæknivæddu húsum er alíslensk. Við erum afar stolt af þeirri staðreynd.
Þeir sem hafa ekki nýlega gengið í gegnum nútíma fiskvinnslu verða eflaust undrandi á þeirri tækni sem þar er notuð í dag. Það gefur auga leið að til að vinna með þessa íslensku tækni og til að halda tækjunum við, þarf vel menntað fólk og er símenntun nauðsynleg í þeirri öru þróun sem þar á sér stað.
Samstarf Vísis við MSS er til fyrirmyndar og hefur sannað sig rækilega varðandi þennan þátt. Einnig er staðreynd að stór hópur okkar góða starfsfólks hefur annað tungumál en íslensku að móðurmáli og því nauðsynlegt að tryggja að tjáning fólks sín í milli sé sem öruggust. Þar kemur til kasta MSS með námskeið af ýmsu tagi, svo sem námskeið í tjáningu og sjálfstyrkingu auk hefðbundinna íslenskunámskeiða. Þá hefur MSS haldið heilsumatreiðslunámskeið á vinnustaðnum.
Í þessari stuttu upptalningu má heldur ekki gleyma þeim kjarasamningsbundnu grunn- og framhaldsnámskeiðum í fiskvinnslunni sjálfri sem MSS stendur fyrir. Af þeim námskeiðum kemur fólk alltaf til baka sem betri og ánægðari starfskraftur.
Að ofantöldu sést vel hve nauðsynlegt starf MSS er. Reynsla Vísis af samstarfinu við miðstöðina er mjög góð og það er traustvekjandi að geta leitað til þeirrar reynslu sem þar er þegar farið er í krefjandi verkefni eins og það sem nú er unnið að hjá okkur.
Að lokum við ég þakka starfsfólki MSS fyrir einstaklega gott samstarf á liðnum árum og vona að það haldi áfram að blómstra í framtíðinni.