19. desember 2016
Yfir 400 manns hafa tekið fjarnám Menntastoða
Menntastoðir eru undirbúningsnám fyrir frumgreinadeildir Háskólanna eða fyrir nemendur sem stefna á frekara iðnnám. Markmið með námsleiðinni er meðal annars það að veita fullorðnum námsmönnum tækifæri til að ljúka almennum bóklegum greinum á stuttum tíma og taka þannig fyrstu skrefin að frekara námi.
Rúmlega 420 nemendur hafa lokið námsleiðinni hjá MSS og hefur stór hluti nemenda haldið áfram í meira nám. Menntastoðir hafa reynst mörgum fullorðnum námsmönnum stuðningur og hvati til þess að halda áfram í námi, til dæmis á háskólabrú Keilis og svo í háskólanámi.
Nemendahópur Menntastoða er fjölbreyttur og á öllum aldri. Fólk með mismunandi bakgrunn og reynslu. Sjómenn, atvinnumenn í fótbolta, nemendur með erlendan bakgrunn svo eitthvað sé nefnt.
MSS hefur verið leiðandi í Fjarnámi í Menntastoðum og þjónustar nemendur af öllu landinu og þá sem búa erlendis.
Í janúar fer af stað nýr hópur í fjarnámi Menntastoða. Námið er 10 mánaða langt og metið til allt að 50 eininga. Kennsla fer fram á netinu en boðið er upp á staðlotur á sex vikna fresti.
Þetta fyrirkomulag getur verið frábær lausn fyrir þá sem eru í vinnu en hyggja á frekara nám. Miðað er við lotukennslu og því er eitt fag kennt í einu en námstækni dreifist á báðar annirnar.
Opið er fyrir skráningar í fjarnám sem hefst í janúar 2017.
Smellið á myndirnar að neðað til að lesa ummæli frá fyrrum fjarnemum Menntastoða MSS.